Viðskipti innlent

Fengu 105 milljóna króna hækkanir

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Í kjölfar fyrirspurnar ríkisskattstjóra um inneignir og stöðu aflandsfélaga óskuðu nokkrir eftir leiðréttingu á skattskilum. Myndin er frá Lúxemborg.
Í kjölfar fyrirspurnar ríkisskattstjóra um inneignir og stöðu aflandsfélaga óskuðu nokkrir eftir leiðréttingu á skattskilum. Myndin er frá Lúxemborg.
Fimm félög og þrír einstaklingar hafa á síðasta ári og það sem af er þessu ári óskað eftir að fá að leiðrétta skattskil sín vegna tekna og eigna á árunum 2010 til 2015. Óskirnar komu í kjölfar fyrirspurnar ríkisskattstjóra um inneignir þeirra og aflandsfélög.

Heildarupphæð skattahækkananna á tímabilinu nam 105.346.563 krónum, að því er Skúli Eggert Þórðar­son ríkisskattstjóri greinir frá.

Í fyrra höfðu 515 Norðmenn samband við skattayfirvöld til að greina frá því að þeir ættu fjármuni í felum erlendis, að því er norska ríkisútvarpið greinir frá. Haft er eftir skattrannsóknarstjóra eins af skattaumdæmum Noregs, Jan-Egil Kristiansen, að til viðbótar athyglinni sem afhjúpunin í tengslum við Panama-skjölin vakti sé fólk hrætt við að erlendir bankar veiti upplýsingar. Vegna nýrra samninga muni alþjóðlegir bankar gefa út skýrslur án þess að beðið sé um það.

Frá 2007 hafa tæplega 2.000 Norðmenn haft samband við skattayfirvöld til að greina frá eignum og tekjum erlendis. Þeir sem nýta sér griðareglur eiga hvorki viðbótarskatt né refsingu á hættu. Í frétt norska ríkisútvarpsins segir að séu menn í Panama-skjölunum og sæki um grið geti það verið of seint.

Svokallaðar griðareglur eru ekki í gildi hér á landi. Einstaklingar geta leiðrétt skattskil sín án þess að það hafi aðrar afleiðingar í för með sér en hækkun skatta að viðbættu álagi.

Það er mat Bryndísar Kristjánsdóttur skattrannsóknarstjóra að æskilegt væri að fastar reglur giltu um hvenær leiðréttingar eru heimilar án frekari refsiviðurlaga og hvenær ekki. „Griðareglum er einmitt ætlað að setja slíka framkvæmd í fast horf.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×