Viðskipti innlent

Áttatíu manns hættu hjá Actavis í dag

Birgir Olgeirsson skrifar
Höfuðstöðvar Actavis í Hafnarfirði.
Höfuðstöðvar Actavis í Hafnarfirði.
Áttatíu manns hættu störfum við lyfjaframleiðslu Actavis í dag. Er það liður í áætlunum fyrirtækisins um að leggja niður starfsemi lyfjaframleiðslu fyrirtækisins hér á landi sem voru kynntar í júní árið 2015. Til viðbótar við þá áttatíu sem hættu í dag hættu 105 hjá fyrirtækinu um áramótin.

Við þessar breytingar hjá fyrirtækinu flytjast alls 300 störf úr landinu en búist er við að þeir 115 sem eftir eru hætti hjá Actavis í júlí næstkomandi þegar búið er að ljúka allri framleiðslu hér á landi og loka verksmiðjunni.

Áfram munu þó um 350 manns starfa hjá fyrirtækinu hér á landi á hinum ýmsu sviðum en um er að ræða störf á sviði lyfjaþróunar fyrir alþjóðamarkaði, skráningarsviði sem ber ábyrgð á skráningum og viðhaldi markaðsleyfa út um allan heim, alþjóðlegu gæða- og fjármálasviði, auk sölu- og markaðssviði sem sinnir Íslandsmarkaði, sem og ýmis önnur stoðsvið.

Þá eru hér á landi höfuðstöðvar Medis, dótturfélags fyrirtækisins, sem selur lyf og lyfjahugvit Actavis til annarra lyfjafyrirtækja.


Tengdar fréttir

300 störf hjá Actavis flutt frá Íslandi

Robert Stewart, forstjóri samheitalyfjasviðs og alþjóðaframleiðslu samstæðunnar, segir í fréttatilkynningu að ákvörðunin endurspegli ekki frammistöðu starfsmanna.

Actavis fær nýja eigendur

Ísraelski samheitalyfjarisinn Teva Pharmaceutical Inudstries Ltd hefur fest kaup á samheitalyfjahluta Allergan fyrir 5400 milljarða íslenskra króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×