Innlent

Elsti Íslendingurinn látinn

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Georg Breiðfjörð Ólafsson.
Georg Breiðfjörð Ólafsson. Mynd/Aðsend
Georg Breiðfjörð Ólafsson, sem var elsti núlifandi Íslendingurinn, lést í gær 107 ára að aldri. RÚV greinir frá.

Georg var fæddur 26. mars 1909 og var því ekki langt frá því að ná 108 aldri. Georg fæddist í Akureyjum í Gilsfirði í Dalasýslu en Foreldrar Georgs voru þau Ólafur Sturlaugsson bóndi og ullarmatsmaður og Ágústa Sigurðardóttir.

Georg ólst upp á sveit í Dalasýslu og starfaði sem skipasmiður. Árið 1940 flutti Georg til Stykkishólms og bjó hann þar alla tíð síðan.

Eiginkona Georgs var Þorbjörg E. Júlísdóttir frá Bjarneyjum á Breiðafirði, seinna Geirmundarstöðum á Skarðsströnd, og eignuðust þau hjónin þrjá syni. Barnabörnin eru fjögur og barnabarnabörnin tvö.

Sjá einnig: 106 ára og miðpunktur umfjöllunar stærsta karlatímarits Bandaríkjanna

Á síðasta ári var Georg miðpunktur í leit bandaríska blaðamannsins Jim Thornton að svarinu við því af hverju íslenskir karlmenn lifa lengur en kynbræður sínur í tölublaði karlablaði Bandaríkjanna, Men's Health.

„Ég hef ekki hugmynd um af hverju ég hef lifað svona lengi,“ sagði Georg við Thornton þar sem hann ræddi barnæsku sína.

„Allir í kringum mig hafa alltaf verið jákvæðir, þannig að ég smitaðist af því,“ sagði Georg en blaðamaðurinn greindi einnig frá því að þegar tími var kominn til þess að segja bless tók Georg svo fast í höndina á honum að hún brotnaði næstum því, svo kraftmikið var handtakið hans.

Langlífi er í ætt Georgs. Báðar ömmur hans urðu 95 ára, föðurafi hans 83 ára og annar bróðir hans rétt tæplega 100 ára. 

Georg þakkaði langlífi sitt ekki mataræði. Hann borðað allan venjulegan mat, bæði saltaðan, súran og hertan, fisk, sel, lambakjöt, sjófugl, egg og annað sem var í boði, fremur lítið af grænmeti en mikinn sykur. Georg var heiðursborgari Stykkishólms og heiðursfélagi hjá félagi iðnaðarmanna í Stykkishólmi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×