Erlent

Einn látinn í storminum Doris í Bretlandi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Stormurinn Doris gengur nú yfir Bretlandseyjar.
Stormurinn Doris gengur nú yfir Bretlandseyjar. Vísir/EPA
Kona lést í dag, nálægt Birmingham, þegar stormurinn Doris reið yfir Bretland en vindhviður hafa náð allt að 44 metrum á sekúndu í dag með tilheyrandi rigningu og snjókomu. BBC greinir frá.

Að sögn sjúkraliða á vettvangi féll brak á konuna með þeim afleiðingum að hún fékk þungt höfuðhögg og lést hún samstundis. Fjöldi fólks hefur slasast á eyjunum vegna stormsins þar sem tré og annarskonar brak fýkur um.

Þúsundir heimila eru án rafmagns í Norður Írlandi, Wales, Skotlandi og norðurhluta Englands. Þá hafa almenningssamgöngur fallið niður, ásamt flugsamgöngum þar sem þurft hefur að aflýsa tugum millilandafluga vegna stormsins.

Stormurinn fór að gera vart við sig strax í morgun en flugvél Icelandair lenti til að mynda í erfiðleikum við lendingu í Manchester.

Talið er að veðrinu muni slota þegar líður á kvöldið en búist er við áframhaldandi rigningu um helgina í Bretlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×