Fótbolti

Mourinho: Trúi varla að við eigum að spila á þessum velli

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Mourinho hefur oft verið hressari en á blaðamannafundinum í dag.
Mourinho hefur oft verið hressari en á blaðamannafundinum í dag. vísir/getty
Jose Mourinho, stjóri Man. Utd, er allt annað en sáttur við vallaraðstæður sem hans liði er boðið upp á gegn Rostov í Evrópudeildinni á morgun.

Það verður fyrri leikur liðanna í 16-liða úrslitum keppninnar.

Eftir að hafa skoðað völlinn líkti Mourinho honum við ástandið á Hreiðrinu í Peking þar sem Man. Utd átti að spila á undirbúningstímabilinu. Það var ákveðið að fresta þeim leik út af vallaraðstæðum.

„Ég trúi því varla að við eigum að spila á þessum velli. Ég veit að við verðum að gera það en ég á samt erfitt með að trúa því að það verði spilað á þessum velli ef völl skal kalla,“ sagði Mourinho ekkert allt of kátur í Rússlandi.

„Ég veit ekki hvaða leikmenn ég á að nota í þessum leik. Ég þarf að hugsa þetta aðeins upp á nýtt því ég hélt að það væri hægt að spila fótbolta hérna. Ég kvartaði í eftirlitsmanni UEFA yfir aðstæðunum en hann sagði mér ekki að hafa neinar áhyggjur. Leikmenn væru tryggðir.“

Zlatan Ibrahimovic mun þó spila enda er hann á leiðinni í þriggja leikja bann heima fyrir.

Svona leit völlurinn út í dag.vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×