Innlent

Körlum býðst styrkur upp á milljón krónur fyrir að hefja leikskólakennaranám

Birgir Olgeirsson skrifar
Með þessu verkefni er vonast til að vekja athygli ungra karla á starfi kennara í leikskólum og að fjölga þeim í starfi.
Með þessu verkefni er vonast til að vekja athygli ungra karla á starfi kennara í leikskólum og að fjölga þeim í starfi. Vísir/Valgarður
Karlmönnum stendur nú til boða að fá einnar milljónar króna styrk fyrir að hefja nám á meistarastigi í haust sem veitir þeim leyfisbréf til kennslu á leikskólastigi.

Samband íslenskra sveitarfélaga, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Félag leikskólakennara og Félag stjórnenda leikskóla hafa tekið höndum saman um þetta verkefni sem ber heitið „Karlar í yngri barna kennslu“.

Meginmarkmið verkefnisins er tvíþætt, annars vegar að vekja athygli ungra karla á starfi kennara í leikskólum og hins vegar að fjölga þeim í starfi.

Hlutu samstarfsaðilar styrk úr Jafnréttissjóði Íslands til að vinna að verkefninu.

Ákveðið hefur verið að ráða þrjá karlkyns verkefnisstjóra og veita þeim styrk að upphæð 1.000.000 kr. til að hefja nám á meistarastigi haustið 2017 sem veitir þeim leyfisbréf til kennslu á leikskólastigi.

Umsækjandi skal að lágmarki fullnægja eftirfarandi skilyrðum:

  • Vera karlmaður
  • Hafa lokið grunnnámi í háskóla (s.s. BA, BS, B.Ed.)
  • Hefja M.Ed/MA-nám við Háskólann á Akureyri eða Háskóla Íslands í leikskólakennarafræðum haustið 2017
  • Skila staðfestingu á skólavist fyrir 1. júlí 2017
  • Sinna ákveðnum verkefnum í samráði við stýrihóp verkefnisins með það að markmiði að vekja athygli á náminu
  • Skila stuttri greinargerð að námi loknu
Styrkurinn verður greiddur þegar náminu er lokið og búið að skila afriti af leyfisbréfi til kennslu á leikskólastigi ásamt greinargerð.

Umsóknarfrestur er til og með 20. mars 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×