Innlent

Kallar eftir upplýsingum um ofbeldi í sumarbúðum í Skálholti

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Vísir
Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholti, segir frásögn Vignis Daðasonar af ofbeldi sem hann sætti í sumarbúðum í Skálholti, vera þess eðlis að ekki komi annað til greina en að skoða sannleiksgildi hennar.

Í viðtali við vefinn Hún.is segir Vignir frá því að hann hafi tíu ára gamall farið í Sumarbúðir í Skálholti og orðið þar fyrir ofbeldi af höndum prests

„Það er furðulegt hvernig tilviljunin ein getur breytt öllu sem átti eftir að gerast,“ segir Vignir.

„Ég lendi svo í því að einn af starfsmönnum sumarbúðanna réðist á mig. Hann lamdi mig og dró mig yfir gaddavírsgirðingu og ég ber enn örið eftir það á höfðinu en örið á sálinni var mun verra,“ segir Vignir í samtali við Hún.is

„Maðurinn, sem var prestur, dró mig niður í matsalinn, fyrir framan alla hina krakkana og spyr þar hvort eigi ekki að hafa mig í bandi, fyrir utan, eins og alla hina hundana.“

Vignir segir að þessi reynsla hafi breytt lífi hans til frambúðar.

„Þarna var sakleysi mitt tekið úr lífi mínu og reiðin kom í staðinn og hún átti eftir að hamla mér næstu 35 árin. Ég breyttist sem einstaklingur. Ég fór að gefa skít í alla kennara, hætti að nenna að læra og hægt og rólega fór skólagangan í hundana,“ segir hann.

Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholti bregst við frásögn Vignis á Facebook síðu sinni og segir að lýsingin sé með þeim hætti og ásakanirnar svo alvarlegar að ekki komið annað til greina en að athuga sannleiksgildi orða Vignis.

„Nú er ég dálítið hugsi yfir frásögn manns sem var í Sumarbúðum í Skálholti tíu ára gamall, sem hefur þá væntanlega verið árið 1972. Lýsingin sem þar er sett fram er með þeim hætti að ekki kemur til greina annað en að skoða sannleiksgildi hennar, svo alvarlegar eru þær ásakanir sem þar koma fram,“ skrifar Kristján.

„Ég kalla sérstaklega til þeirra sem voru í hópi starfsfólks í Sumarbúðunum í Skálholti sumarið 1972. Mér fyndist rétt að þau sem voru þar þá, tjái sig um þessa sögu málshefjandans.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×