Erlent

Viðurkennir að hafa myrt frönsku fjölskylduna

atli ísleifsson skrifar
Pascal, Brigitte, Sebastien og Charlotte Troaded bjuggu í Nantes.
Pascal, Brigitte, Sebastien og Charlotte Troaded bjuggu í Nantes. Vísir/AFP
Franskir fjölmiðlar segja að maður sem tengist Troadec-fjölskyldunni fjölskylduböndum hafi viðurkennt að hafa myrt fjölskylduna sem hefur verið saknað síðan um miðjan febrúar.

Leitin að Troadec-hjónunum, Pascal og Brigitte, og börnunum Sebastien, 21 árs, og Charlotte, átján ára, hefur vakið mikla athygli í Frakklandi síðustu vikur.

Fyrrverandi mágur Pascal, sem nefndur er Hubert C, hefur nú viðurkennt fyrir lögreglu að hafa drepið fjölskylduna vegna erfðadeilna um gullstangir.

Le Parisien segir frá því að talið sé að fyrrverandi mágur Pascal hafi banað meðlimi fjölskyldunnar á heimili þeirra í Nantes, en lífsýni af manninum hafa fundist á heimilinu. Ekki er ljóst hvort að Hubert C hafi greint lögreglunni frá því hvar lík Troadec-fjölskyldunnar séu niður komin.

Bíll Sebastien fannst síðastliðinn fimmtudag í hafnarbænum St Nazaire.Vísir/AFP
Handtekin í Brest

Hubert C var handtekinn ásamt fyrrverandi eiginkonu sinni Lydie, systur Pascal, í Brest, þó að ekki liggi fyrir hver þáttur hennar í málinu sé. Hlutir í eigu Troadec-fjölskyldunnar fundust í fórum Hubert C, en síðast sást til fjölskyldunnar þann 16. febrúar.

Hinn 46 ára Hubert C hafði áður varið yfirheyrður af lögreglu en sagst ekki hafa séð Troadec-fjölskylduna í nokkur ár.

Lífsýni Hubert C fundust á glasi í vaski á heimili Troadec-fjölskyldunnar og einnig í bíl Sebastien sem fannst síðastliðinn fimmtudag í hafnarbænum St Nazaire. Degi fyrr höfðu skilríki og buxur í eigu Charlotte fundist í skóglendi nærri Brest.

Við leit á heimili Troadic-fjölskyldunnar í síðustu viku höfðu fundist blóð úr Pascal, Brigitte og Sebastien, en ekki Charlotte. Fannst blóðið á síma Sebastien og úri Brigitte og virtist sem að einhver hafi reynt að hreinsa blóðblettina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×