Erlent

Fillon hvetur stuðningsmenn sína til að gefast ekki upp

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Francois Fillon, ásamt eiginkonu sinni, Penelope Fillon á fjöldasamkomunni í miðbæ Parísar í dag.
Francois Fillon, ásamt eiginkonu sinni, Penelope Fillon á fjöldasamkomunni í miðbæ Parísar í dag. Vísir/EPA
Forsetaframbjóðandi franska Repúblikanaflokksins, Francois Fillon, hvetur stuðningsmenn sína til þess að gefast ekki upp en þetta kom fram í ræðu frambjóðandans á fjöldasamkomu í miðbæ Parísar í dag. BBC greinir frá.

Tugir þúsunda stuðningsmanna Fillon söfnuðust saman í miðbæ borgarinnar í dag til þess að sýna honum stuðning og veifuðu margir franska fánanum. Samkoman er talin vera prófsteinn á vinsældir Fillon sem átt hefur í miklum erfiðleikum að undanförnu vegna rannsókn lögreglunnar á spillingarmálum hans.

Þessi spillingarmál hafa leikið Fillon grátt og hefur fylgi hans fallið í skoðanakönnunum. Þá sagði kosningastjóri hans af sér síðastliðinn föstudag vegna þessa. Franski Repúblikanaflokkurinn hyggst halda neyðarfund til að ákveða næstu skref í kosningabaráttunni á mánudag.

Í ræðu sinni á fjöldasamkomunni þakkaði Fillon stuðningsmönnum sínum fyrir stuðninginn og hvatti þá til að gefast ekki upp. Þá vísaði hann einnig til andstæðinga sinna.

„Þeir halda að ég sé einn, þeir vilja að ég sé einn. Erum við ein? Takk fyrir að vera viðstödd þennan atburð!“

Fillon sagðist vera þess fullviss um að rannsókn lögreglu myndi leiða í ljós sakleysi hans af umræddum spillingarmálum. Hann sagði þó að hann hefði vissulega gert mistök þegar hann réði konu sinna til starfa, en spillingarmálin hafa snúð að því að hann hafi ráðið hana í starf sem þingmaður, án þess þó að hún hafi haft tilheyrandi verkefni til að vinna að. Eiginkona hans, Penelope Fillon, hefur áður haldið því fram að hún hafi raunverulega unnið að verkefnum á vegum þingsins.

Nýjustu skoðanakannanir benda til þess að Fillon muni tapa í forkosningum þann 23. apríl næstkomandi en kosningar verða svo haldnar þann 7. maí, þar sem sigurvegarar forkosninganna mætast.


Tengdar fréttir

Kosningastjóri Fillon segir af sér

Patrick Stefanini hefur sagt af sér sem kosningastjóri Francois Fillon, forsetaframbjóðanda Repúblikana í Frakklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×