Innlent

Segir nýtt húsnæðisbótakerfi ýta undir svarta atvinnu

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Ásta Hafberg, talsmaður Leigjendasamtakanna, gagnrýnir nýtt húsnæðisbótakerfi sem tekið var í gagnið nú um áramótin og segir það ýta undir svarta atvinnu og auka hættu á að fólk festist í fátæktargildru á leigumarkaði.

Húsnæðisbótakerfið tók við af gamla leigubótakerfinu en samkvæmt hinu nýja fyrirkomulagi eru húsnæðisbæturnar tekjutengdar þannig að upphæðin sem leigjandinn fær getur sveiflast til milli mánuða.

Þessar breytingar eru hluti af húsnæðisáætlun Eyglóar Harðardóttur, fyrrverandi félagsmálaráðherra, um að koma til móts við fólk á leigumarkaði en töluverð umræða hefur verið um stöðu þeirra með hækkandi fasteigna- og leiguverði undanfarin ár.

Ásta sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag að nú þegar komin sé nokkurra mánaða reynsla á nýja kerfið hafi komið í ljós að margir leigjendur á almennum markaði séu að fá lægri bætur en í gamla kerfinu. Hún segir að húsnæðisbætur eigi vitaskuld að vera tekjutengdar en gagnrýnir aftur á móti að tekjutengingin miði við hver mánaðarmót í stað þess að fastar bætur séu reiknaðar út árlega líkt og í gamla kerfinu.

„Ég held að það sem sé að koma fólki á óvart núna sé að tekjutengingin sé mánaðarleg. Það þýðir kannski að einn mánuðinn einn mánuðinn færðu meira en hinn mánuðinn færðu minna.“

Refsað fyrir að vinna meira

Með þessu segir Ásta að verið sé að refsa leigjendum fyrir það að vinna meira. Ef tekjurnar hækka einn mánuðinn jafnist það út þar sem húsnæðisbæturnar lækki á móti.

„Okkur hefur núna tekist að búa til enn eitt kerfið á Íslandi sem gerir það að verkum að fólk sækir í svarta vinnu. Við vitum alveg hvernig Íslendingar eru þegar það fer að harðna á dalnum, þá fer fólk að sækja í svarta vinnu.“  

Þannig verði til fátæktargildra leigjenda og enn erfiðara verði fyrir þá að safna fyrir útborgun í íbúð.

„Þú getur ekki safnað pening, þú getur ekki komið þér út úr leigustíflunni. Það getur hreinlega ekki verið takmark miðað við hvernig húsnæðismarkaðurinn er í dag að halda fólki í svona gildru ævilangt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×