Innlent

Þúsundir barna lenda í einelti

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Ráðstefna um einelti var haldin í dag þar sem dr. Debra Pepler, virtur sérfræðingur um einelti frá Kanda, var meðal fyrirlesara. Hún segir einelti vera samfélagsmein og því hafi verið stofnuð regnhlífasamtök í Kanada þar sem hundruð samtaka og stofnana taka höndum saman í baráttu gegn einelti. Pepler segir slíkt fyrirkomulag henta vel fyrir Ísland vegna smæðar landsins.

„Þið eigið góðan möguleika," segir hún. „Forsetinn var hér í morgun og þrjú hundruð manns að hlusta af áhuga. Ef þessir þrjú hundruð dreifa sínum áhrifum og fá fólk með sér í lið þá eruð þið fljót að smita áfram áhrifunum. Þið eigið miklu meiri möguleika en við í Kanada."

Þótt gengið hafi vel að fræða um einelti á Íslandi og margir starfsmenn í skólum og tómstundum séu vel vakandi er vandinn enn til staðar.

5,5 prósent unglinga verða fyrir einelti

„Nýjustu tölurnar samkvæmt nýjustu rannsóknum eru að 5,5 prósent barna í 6., 8. og 10. bekk verða fyrir einelti tvisvar til þrisvar í viku. Og við vitum að einelti er meira hjá yngri bekkjunum," segir Vanda Sigurgeirsdóttir, sem hefur sérhæft sig í ráðgjöf og rannsóknum í eineltismálum. „Það eru þúsundir barna og þó það væri ekki nema eitt þá er það einu barni of mikið.“

Vanda vonast til að ráðstefnan verði til þess að fleiri vinni saman - að hætti Kanadamanna og stjórnvöld setji fjármagn í að stofna slík regnhlífasamtök. En peningar skipta þó ekki mestu máli að hennar mati.

„Þetta er fyrst og fremst viðhorf og að taka ákvörðun um að taka aldrei þátt í einelti og horfa aldrei upp á einelti án þess að gera neitt í því. Það er hjartans ákvörðun sem kostar enga peninga,“ segir Vanda.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×