Innlent

Hjúkrunarforstjóri dvalarheimilisins í Eyjum kærður til lögreglu

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Vísir/Pjetur
Hjúkrunarforstjóri dvalarheimilisins Hraunbúða hefur verið kærður til lögreglu. Þetta staðfesti Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, í samtali við Vísi. RÚV greindi fyrst frá.

„Hjúkrunarforstjóri Hraunbúða hefur látið af störfum,“ segir Elliði.

„Það er rökstuddur grunur um alvarlegan trúnaðarbrest sem hefur að gera með meðferð fjármuna. Málið hefur verið kært til lögreglu, það er til rannsóknar þar.“

Hraunbúðir hafa undanfarið glímt við fjárhagsvanda. Á fundi fjölskyldu- og tómstundaráðs Vestmannaeyja þann 20. janúar 2016 kom fram að í árslok 2015 var skuld Hraunbúða við aðalsjóð Vestmannaeyjabæjar orðin um 372 milljónir króna og að Vestmannaeyjarbær þyrfti að greiða um 35 milljónir á ári með rekstrinum til að geta veitt nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.

„Viðkomandi starfsmaður var í veikindaorlofi þegar málið kemur upp,“ segir Elliði.

„Við byrjum að vinna þetta mál fyrir þó nokkrum dögum, en þetta eru alltaf erfið mál sem tengjast svona einstökum starfsmönnum og það er að mörgu að huga. Bæði hvað varðar okkar skjólstæðinga sem þarna eiga heima, samstarfsfólk og að sjálfsögðu viðkomandi starfsmenn. Við reynum að vinna svona mál með það í huga að aðgát skuli höfð í nærveru sálar og það á við um alla sem málin tengjast.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×