Innlent

Setja upp sjálfvirk landamærahlið á Keflavíkurflugvelli

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Keflavíkurflugvöllur.
Keflavíkurflugvöllur. Vísir/Vilhelm
Isavia mun setja upp tólf sjálfvirk landamærahlið á Keflavíkurflugvelli í sumar. Samningur um uppsetningu hliðanna var undirritaður í morgun.

Í tilkynningu frá Isavia segir að gert sé ráð fyrir að hliðin muni hraða afgreiðslu í landamæraeftirliti og auka þægindi farþega. Þar segir einnig að slík hlið séu orðin orðin algeng sjón á flugvöllum í Evrópu.

Jón Pétur Jónsson yfirmaður löggæslu á Keflavíkurflugvelli, Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, Guðmundur Karl Gautason stjórnandi aðgerðagreiningar hjá Isavia, Ólafur Helgi Kjartansson lögreglustjóri á Suðurnesjum, Christian Rutigliano yfirmaður sölu hjá secunet og Hlynur Sigurðsson framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Keflavíkurflugvallar.Vísir
Fyrirtækið secunet sér um uppsetningu hliðanna en landamærahlið frá fyrirtækinu eru meðal annars notuð á stærstu flugvöllum í Þýskalandi, auk flugvallarins í Prag í Tékklandi.

Hliðin virka þannig að þau lesa upplýsingar í vegabréfi farþega auk þess að bera myndina í vegabréfinu við mynd sem hliðið tekur af farþeganum á flugvellinum. Landamæraeftirlitið fylgist með notkun og taka lögreglan og landamæraverðir við ef hliðin telja að skoða þurfi ákveðið vegabréf betur.

Samningurinn er gerður að undangengnu útboði og í samstarfi við ríkislögreglustjóra og lögreglustjórann á Suðurnesjum, en landamæraeftirlit á Keflavíkurflugvelli er framkvæmt af lögreglunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×