Fótbolti

Landsliðsstjarna Noregs vonar að Lagerbäck herði leikmenn

Eiríkur Stefán Ásgeirson skrifar
Lars Lagerbäck er nýr landsliðsþjálfari Noregs.
Lars Lagerbäck er nýr landsliðsþjálfari Noregs. Vísir/Getty
Joshua King, sóknarmaður Bournemouth og norska landsliðsins, vonast til þess að Lars Lagerbäck takist að herða leikmenn norska landsliðsins. Það sé nauðsynlegt að gera.

Lagerbäck hefur áður látið hafa eftir sér í viðtölum eftir að hann tók við sem landsliðsþjálfari Noregs að leikmenn hafi haft það aðeins of gott í landsliðinu hingað til og séu aðeins of almennilegir við andstæðinga sína inni á vellinum.

„Ég vona að hann herði alla leikmenn. Það er hans hlutverk,“ sagði King í viðtali við Verdens Gang. Lagerbäck var sem kunnugt er landsliðsþjálfari Íslands en lét af störfum eftir EM í Frakklandi síðasta sumar.

„Hann ætti að vita hvað þarf til að gera það, annars hefði hann ekki sagt þetta. Ég vona að hann geti hert leikmennina því ég er sammála því að það þurfi að gera.“

Joshua King í leik með Bournemouth.Vísir/Getty
Sjálfur vill hann þó ekki segja hverjir hafi helst verið of afslappaðir í norska landsliðinu hingað til. En þyrfti hann sjálfur að láta aðeins herða sig?

„Tja, kannski er ég einn af þeim. En ég hef ekkert á móti því að fara eftir fyrirmælum þegar ég er hluti af heldinni. Þá er ég í vinnunni og ég geri það besta sem ég get fyrir liðið og fer eftir því sem þjálfarinn segir.“

Lagerbäck mun líklega velja sinn fyrsta landsliðshóp í dag en Noregur mætir Norður-Írlandi á útivelli um aðra heldi.

Norðmenn hafa tapað þremur af fyrstu fjórum leikjum sínum í undankeppninni og eru í næstneðsta sæti C-riðils með þrjú stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×