Innlent

Hópslagsmál í Kringlunni milli unglingahópa

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Kringlan.
Kringlan. Vísir/Vilhelm
Tveir unglingahópar tókust á í Kringlunni í gærkvöldi samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Einn slasaðist og telur lögregla sig vita hverjir voru að verki.

Lögregla hafði í mörg horn að líta í gær og í nótt. Um klukkan tvö í nótt var tilkynnt um slagsmál í miðborginni og var kona flutt á slysadeild til aðhlynningar.

Um klukkustund síðar var óskað eftir aðstoð á slysadeild þar sem kærasti konunnar var með leiðindi inni á skoðunarstofu. Maðurinn veittist að lækni og lögreglumanni sem þar var staddur og ýtti lækninum sem datt.

Maðurinn var handtekinn og fór þá kærastan að skipta sér af. Bæði voru handtekin og vistuð vegna málsins.

Í Hafnarfirði tókust leigutaki og leigusali á þar sem leigusalinn var að vísa leigutakanum út en hann hafði brotið umgengnisreglur. Lögregla var kölluð til vegna slagsmálanna.

Þá var talsvert um akstur undir áhrifum fíkniefna eða áfengis á höfuðborgarsvæðinu. Einn var handtekinn í Hafnarfirði eftir að hafa hafði ekið á þrjár bifreiðar við bensínstöð í Hafnarfirði. Var hann látinn sofa úr sér vímuna áður en rætt var við hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×