Innlent

Biðla til HB Granda um að fresta áformum sínum

Kjartan Kjartansson skrifar
Bæjarstjórnin lýsir yfir vilja til að bæta hafnaraðstöðu á Akranesi fyrir HB Granda.
Bæjarstjórnin lýsir yfir vilja til að bæta hafnaraðstöðu á Akranesi fyrir HB Granda. Vísir/GVA
Bæjarstjórn Akraness hefur samþykkt viljayfirlýsingu um uppbyggingu á hafnaraðstöðu og óskar eftir að HB Grandi fresti áformum sínum um að loka botnfiskvinnslu í bænum um mánuð til að kanna kostina í stöðunni.

HB Grandi hyggst láta af botnfiskvinnslu sinni á Akranesi. Heimildir Fréttablaðsins herma að öllum 93 starfsmönnum vinnslunnar verði sagt upp um mánaðamótin. Forsvarsmenn fyrirtækisins vísa til styrkingar krónunnar sem meginástæðu samdráttar í starfsemi þess.

Á fundi sínum síðdegis í dag samþykkti bæjarstjórn Akraness viljayfirlýsingu til stjórnar HB Granda vegna uppbyggingar í bænum. Vill bæjarstjórnin ná samkomulagi við fyrirtækið og Faxaflóahafnir um gerð landfyllingar og nauðsynlegar endurbætur á hafnaraðstöðu við Akraneshöfn til að unnt sé að koma áformum HB Granda um uppbyggingu þar frá árunum 2007 og 2014 til framkvæmda.

Leggur bæjarstjórnin fram fjórar tillögur að útfærslu á þessum framkvæmdum. Á meðal þeirra er 40.000 fermetra landfylling þar sem hægt væri að koma fyrir lóðum fyrir starfsemi HB Granda.

Með þessu vonast bæjarstjórnin til þess að stjórn HB Granda fresti áformum sínum um lokun vinnslunnar um mánuð og endurskoði þau í ljósi viljayfirlýsingarinnar.

„Með þessu gefst bæjarstjóra og forstjóra HB Granda svigrúm til að skoða til hlítar aðra þá kosti sem eru í stöðunni, bæjarfélaginu og fyrirtækinu til heilla. Samofin saga HB Granda og Akraneskaupstaðar er of mikilvæg og verðmæt til að henni verði kollvarpað í einu vetfangi. Því ber aðilum skylda til að leita allra leiða til farsællrar lausnar,“ segir í viljayfirlýsingunni.


Tengdar fréttir

Svartur dagur í sögu Akranesbæjar

93 starfsmenn munu að öllum líkindum missa vinnuna hjá HB Granda í lok mánaðar. Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir stöðuna í bænum grafalvarlega.

Neyðarfundur vegna aðgerða HB Granda

Tæplega hundrað starfsmönnum í botnfiskvinnslu HB Granda á Akranesi verður sagt upp og vinnslan færð til Reykjavíkur. Þingmenn kjördæmisins og bæjarstjórn funduðu í gærkvöldi vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×