Viðskipti innlent

HB Grandi ætlar að láta af botnsfiskvinnslu á Akranesi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Akranes.
Akranes. Vísir/GVA
HB Grandi áformar að láta af botnfiskvinnslu á Akranesi og hefur hafið samráð við trúnaðarmenn stéttarfélaga starfsmanna vegna þessa og því sem það kann að þýða fyrir starfsfólk.

Þetta kemur fram í tilkynningu HB Granda til kauphallar. Þar segir að stefnt sé að því að sameina botnfiskvinnslu félagsins á Akranesi við vinnsluna í Reykjavík.

Á Akranesi starfa nú um 270 starfsmenn innan samstæðu HB Granda, þar af starfa 93 við botnfiskvinnsluna. Haldinn verður starfsmannafundur í húsakynnum HB Granda á Akranesi klukkan 15.15.

HB Grandi tilkynnti í dag að það myndi draga verulega úr eða hætta kaupum botnfisks á fiskmarkaði, því útlit er fyrir tap af landvinnslu botnfisks og hafa rekstrarhorfur ekki verið lakari í áratugi, að því er sagði í tilkynningu frá félaginu fyrr í dag.

Þá segir einnig að í dag sé hvorki hafnaraðstaða né aðstaða til vinnslu alls botnfiskafla ísfisktogara HB Granda á Akranesi en forsvarsmenn félagsins og Akranesbæjar eiga í viðræðum um mögulegar breytingar á því.

HB Grandi rekur, auk botnfiskvinnslunnar, skipaverkstæði, fiskimjölsverksmiðju, loðnuvinnslu og tvö dótturfyrirtæki, Norðanfisk og Vignir G. Jónsson á Akranesi. Í tilkynningunni segir að stefnt sé að frekari uppbyggingu og eflingu þess rekstrar á Akranesi.

Fyrirtækið hefur boðað til blaðamannafundar í tengslum við þetta. Hefst hann klukkan 15.45 og verður blaðamannafundurinn í beinni útsendingu á Vísi.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×