Erlent

Vilja skjóta eldflaug aftur samdægurs

Samúel Karl Ólason skrifar
Falcon 9 eldflauginni skotið á loft
Falcon 9 eldflauginni skotið á loft
Elon Musk, stofnandi og eigandi SpaceX, segir fyrirtækið hafa náð „byltingakenndum“ árangri árangri í gær með því að skjóta Falcon 9 eldflaug út í geim í annað sinn og lenda henni aftur á jörðinni í heilu lagi.

Með þessari tækni sem fyrirtækið hefur þróað sparast verulegur kostnaður við geimskot. Hefðbundnar eldflaugar eru oftast hannaðar til þess að brenna upp í gufuhvolfinu eftir geimskot. Því þarf að smíða nýja eldflaug fyrir hvern gervihnött sem sendur er á sporbraut um jörðu, eða í hvert sinn sem birgðir eru sendar til geimstöðvarinnar.

Musk segir næsta markmið SpaceX vera að skjóta sömu eldflauginni upp í geim, tvisvar sinnum á einum sólarhring.

Lendingin í gær var í níunda sinn sem eldflaug SpaceX lendir í heilu lagi á jörðinni eftir geimferð. Sex eldflaugar hafa lent á skipinu Of Course I Still Love You og þrjár hafa lent á jörðinni.

Fyrirtækið hefur unnið að þróun þessarar tækni í fimmtán ár og Musk hefur sagt að markmiðið sé að nota eldflaugar eins og flugvélar og jafnvel bíla.

Hann lítur á þessa þróun, að draga verulega úr kostnaði við geimskot, sem mikilvægan lið í að koma upp byggð manna á Mars.

Eldflaugin sem skotið var á loft í gær verður gefin til NASA, Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna, og verður hún til sýnis á Canaveralhöfða í Flórída.

Geimskotið Musk tjáir sig. Myndir frá Flórída.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×