Innlent

Steggjunin sem endaði með fótbroti: Árni úr járni og Mjölnir sýknaðir í Hæstarétti

Birgir Olgeirsson skrifar
Árni Ísaksson, bardagakappi, fagnaði sigri í Hæstarétti í dag.
Árni Ísaksson, bardagakappi, fagnaði sigri í Hæstarétti í dag. Vísir/Valli
Hæstiréttur hefur sýknað  bardagaíþróttafélagið Mjölni og bardagakappann Árna Ísaksson í máli sem fasteignasalinn Lárus Óskarsson höfðaði vegna fótbrots sem Lárus varð fyrir í steggjun sinni í húsakynnum Mjölnis í ágúst árið 2014.

Lárus stefndi Mjölni og Árna og snerist málið um það hvort Mjölnir og Árni væru skaðabótaskyldir í málinu. Héraðdómur Reykjavíkur kvað upp dóm í málinu í mars í fyrra og komst að þeirri niðurstöðu að Mjölnir og Árni væru skaðabótaskyldir í málinu. Hæstiréttur var hins vegar á öndverðum meiði.

Dóm Hæstaréttar má lesa hér.

Í málinu krafðist Lárus viðurkenningar á því að Árni og Mjölnir bæru óskipta skaðabótaábyrgð á líkamstjóni sem hann sagðist hafa orðið fyrir þegar hann féll í glímu við Árna.

Í dómi Hæstaréttar kom fram að gögn málsins og framburður aðila og vitna fyrir dómi bæri með sér að tilgangur þess að Lárus fór inn í bardagahringinn með Árna hefði ekki verið til kennslu í bardagaíþróttum heldur til þess að hafa mætti af því gaman fyrir viðstadda.

Í dómnum kemur jafnframt fram að Lárus gerði sér grein fyrir því áður en hann gekk til leiksins að hin fyrirhuguðu glímutök krefðust líkamlegrar snertingar og að í slíkum átökum gætu menn slasast.

Vísað var til þess að íslenskum rétti hefðu lengi gilt reglur um áhættutöku sem ættu sér ótvíræða stoð í dómaframkvæmd á sviði skaðabótaréttar.

Úr húsakynnum Mjölnis.Vísir/Andri Marinó
Að þessu gættu og með hliðsjón af myndskeiðum og framburði aðila fyrir dómi var talið að Láru hefði í upphafi leiksins fengið nokkrar leiðbeiningar frá Árna um það hvernig hann skyldi bera sig í leiknum og að Árni hefði við umrædda fellu borið sig í aðalatriðum eins að og í fyrri fellu.

Samkvæmt þessu og þar sem Lárus byggði ekki á því að aðferð Árna við fyrri felluna eða verklag hefði verið rangt, yrði Árni ekki gerður ábyrgur fyrir afleiðingum þeirra meiðsla sem Lárus kvaðst hafa hlotið.

Af þeirri niðurstöðu leiddi að ekki þurfti að taka afstöðu til hugsanlegrar ábyrgðar Mjölnis sem vinnuveitanda árna. Voru þeir því sýknaðir af kröfu Lárusar.

Fótbrotinn á fimm mínútum

Vísir fjallaði ítarlega um aðalmeðferðina í málinu í mars í fyrra. Þar lýsti Lárus því hvernig atburðarásin hefði verið umræddan dag. Hann hefði mætt ásamt steggjunarhóp sínum í húsakynni Mjölnis þar sem Árni tók á móti honum og fór með hann í hringinn. Fimm mínútum eftir komuna var hann fótbrotinn.

„Ég segi strax: Þú ert búinn að fótbrjóta mig,” rifjaði Lárus upp í skýrslutöku fyrir dómi. Hann sagði mikil læti og stemningu hafa verið í hópnum á þessum tíma og nokkrir þeirra gefið í skyn að það amaði ekkert að honum. Lárus sagði að Árni hefði sagt við sig að hann væri örugglega ekki brotinn en það hefði eitthvað skrýtið átt sér stað við felluna. Í kjölfarið var keyptur kælipoki fyrir Lárus og almennt talið að hann hefði tognað illa á ökkla. 

Lárus þurfti að fara í aðgerð vegna brotsins, fóru fjórar skrúfur og tveir naglar í ökklann á honum til að laga brotið. Fresta þurfti brúðkaupi hans um tvo mánuði og sagðist hann hafa verið frá vinnu í á þriðja mánuð.

Lárus Óskarsson og lögmaður hans í dómsal í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra. Ernir
Ósjálfráð viðbrögð að stífna upp

Árni bar því við að Lárus hefði, ólíkt því sem hann hefði verið beðinn um, streist á móti sem hefði orðið til þess að hann brotnaði. Lárus bar því hins vegar við að hann væri stirður að upplagi og ósjálfráð viðbrögð að stífna upp.

Árni sagði fyrir dómi að um leiðindaóhapp hefði verið að ræða og hann hefði verið leiður yfir því. Hann bauðst því til að glíma við vini Lárusar á meðan Lárus sat hjá. Svo var stungið upp á því að Árni myndi taka Lárus í hengingartak fyrir steggjunarmyndbandið. Árni sagðist hafa spurt Lárus hvort hann væri viss og sagði hann Lárus hafa svaraði því játandi.

Þrátt fyrir fótbrotið hélt steggjunin áfram og spilaði Lárus meðal annars á saxófón við Ingólfstorg þar sem hann sést á myndbandi stíga í fótinn.

Sársaukinn mismunandi eftir kælingu

Var um það deilt hvort Lárus hefði getað stigið í fótinn á þeim tíma en hann sást ganga um með saxófóninn á Ingólfstorgi. Lárus sagði að hann hefði átt í miklum erfiðleikum með það og sársaukinn hefði verið mismunandi mikill, eftir því hvernig kælingunni leið. Að öðru leyti hefði hann þurft að styðja sig við, hoppa um á öðrum fæti eða hreinlega að láta bera sig.

„Það er hægt að spyrja hvern sem er að því, það er ekki eins og ég hafi verið hlaupandi um á löppinni,” sagði Lárus. Hann frestaði því að leita til læknis þar til daginn eftir þar sem löng bið var á bráðamóttöku Landspítalans þegar hann hélt þangað um kvöldið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×