Erlent

Norður-Kóreu „verði að stöðva“

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Mattis og Fallon á fundi þeirra í gær.
Mattis og Fallon á fundi þeirra í gær. Vísir/Getty
Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Jim Mattis, segir að stjórnvöld í Norður-Kóreu „verði að stöðva“ enda hagi þau sér með óábyrgum hætti. Að hans mati ógna eldflaugatilraunir þeirra Vesturheimi þannig að ekki verður hjá því litið mikið lengur.

Þetta kom fram í máli Mattis á blaðamannafundi með breska varnarmálaráðherranum Michael Fallon í gær.

Á fundinum var Mattis minntur á að þegar hann gegndi stöðu hershöfðinga í Austurlöndum nær hafi hann sagt Íran vera stærstu ógnina við Bandaríkin. Aðspurður um hvernig hann hyggðist taka á Írönum sem nýskipaður varnarmálaráðherra sagði Mattis að af stjórnvöldum í Teheran stafaði vissulega ógn en var fljótur að skipta um umræðuefni og fordæma Norður-Kóreumenn og eldflaugatilraunir þeirra.

Sjá: Lætur ekki misheppnaðar eldflaugatilraunir á sig fá

Mattis segir hið einangra, kommúníska ríki ógna heimsfriði enda styttist óðfluga í að það búi yfir eldflaugum sem geti borið sprengjur allt að vesturströnd Bandaríkjanna.

Varnarmálaráðherrann sagði að nú væri unnið eftir diplómatískum leiðum til að koma í veg fyrir að þessi þróun haldi áfram og að Bandaríkin reyni að fá fleiri að borðinu í þeim efnum.

Eins og staðan er hagi stjórnvöld í Norður-Kóreu sér þó glannalega og „það verður að stöðva,“ sagði Mattis á fundinum.

Hann bætti þó við að hann teldi Írani enn ógna stöðugleika í Austurlöndum nær en eftir að hann tók við embætti varnarmálaráðherra hafi sjóndeildarhringur hans víkkað. Ögranir Norður-Kóreu séu brýnna úrlausnarefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×