Erlent

Yfirlýsing frá Facebook eftir morðið í Cleveland: „Við vitum að við þurfum að gera betur“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Steve Stephens myrti Robert Goodwin, og sýndi morðið á Facebook.
Steve Stephens myrti Robert Goodwin, og sýndi morðið á Facebook. Facebook
Facebook hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna morðs sem framið var á páskadag og birt þá á samfélagsmiðlinum. Steve Stevens myrti 74 ára gamlan mann, Robert Godwin, í Cleveland-borg í Ohio-ríki í Bandaríkjunum og sýndi frá því á Facebook. Eins og gefur að skilja hefur málið vakið gríðarlega athygli en Stevens er enn leitað.

Í yfirlýsingu Facebook, sem lesa má hér, segir að í kjölfarið á morðinu hyggist samfélagsmiðillinn endurskoða verklag sitt varðandi það hvernig er brugðist er við þegar ofbeldisfullu efni er deilt á miðlinum.

Alls setti Stevens inn þrjú myndbönd á Facebook en aðgangi hans að miðlinum var ekki lokað fyrr en tveimur tímum eftir að hann framdi morðið. Í fyrsta myndbandinu segir Steven að hann ætli sér að fremja morð og tveimur mínútum síðar birtir hann svo annað myndband þar sem hann sést skjóta Godwin til bana. Í þriðja myndbandinu játar hann síðan morðið.

Að því er fram kemur í yfirlýsingu Facebook fékk miðillinn enga tilkynningu um fyrsta myndbandið sem Stevens setti inn. Miðillinn fékk  hins vegar tilkynningu um sjálft morðið en ekki fyrr en 45 mínútum eftir að Stevens setti inn myndbandið. Facebook fékk svo tilkynningar um þriðja myndbandið en ekki fyrr en því var lokið.

„Við lokuðum aðgangi hins grunaða innan við 23 mínútum frá því að við fengum fyrstu tilkynningu um myndbandið sem sýndi morðið [...]. En við vitum að við þurfum að gera betur,“ segir í yfirlýsingu Facebook.

 

Þá segir jafnframt að miðillinn sé ávallt að leita nýrra leiða til að gera hann að öruggu samfélagi í netheimum. Gervigreind geti þar komið að góðum notum og þá ætlar fyrirtækið að bæta verkferla varðandi það hvernig brugðist sé við því þegar ofbeldisfullu efni er deilt á samfélagsmiðlinum. Það mun til að mynda fela í sér hraðari forgangsröðun tilkynninga um óæskilegt efni sem dreift er á Facebook.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×