Körfubolti

Stólarnir langt frá því hættir að reyna við þann stóra: Axel Kárason á heimleið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Tindastóll ætlar svo sannarlega ekki að leggja árar í bát í Domino´s-deild karla í körfubolta þrátt fyrir að fá 3-1 skell í átta liða úrslitum deildarinnar á móti Keflavík á þessu tímabili.

Stólarnir hafa ætlað sér stóra hluti síðustu þrjú tímabil og verið með lið til að gera atlögu að titlinum en það hefur ekki tekist. Svo virðist sem Skagfirðingar ætli að gera aðra tilraun til að vinna þann stóra á næstu leiktíð.

Tindastóll er nefnilega búið að semja við íslenska landsliðsmanninn Axel Kárason og mun hann leika með uppeldisfélagi sínu næstu tvö árin. Þetta kemur fram á skagfirsku fréttasíðunni Feykir.is.

Axel er á mála hjá Svendborg Rabbits í Danmörku en liðið er 2-0 undir í undanúrslitaeinvígi sínu á móti Bakken Bears. Hann hefur spilað körfubolta í Danmörku samhliða því að vera í námi en hann er að læra dýralækninn.

„Mér líst afskaplega vel á það að komast heim aftur. Þetta er orðinn drjúgur tími sem ég hef verið í burtu, síðan 2005 með millilendingu veturinn 2009-10. Ég ætla að láta vaða á eitt landsliðsverkefni í viðbót, og vonandi verð ég í lokahópnum sem fer til Finnlands,“ segir Axel við Feyki.

Axel er gríðarlega sterkur leikmaður sem getur bæði spilað sem lítill og stór framherji. Hann er mjög góður varnarmaður sem er að skora fjögur stig að meðaltali í leik fyrir Kanínurnar í Danmörku á 20 mínútum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×