Innlent

Grunur um að starfsmaður og barn á leikskóla hafi smitast af rauðum hundum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mikill meirihluti barna hér á landi er bólusettur fyrir rauðum hundum.
Mikill meirihluti barna hér á landi er bólusettur fyrir rauðum hundum. vísir/getty
Grunur leikur á að starfsmaður og barn á leikskóla í Breiðholti hafi smitast af rauðum hundum en leikskólastjórinn upplýsti skóla-og frístundasvið um þetta á dögunum. Greint er frá málinu á vef RÚV og vísað í umræðu í Facebook-hópnum Mæðratips þar sem móðir fimm ára barns segir frá því að barnið hafi smitast af sjúkdómnum af starfsmanni á leikskólanum.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir í samtali við Vísi að málið hafi ekki komið inn á borð til Landlæknisembættisins. Það er því ekki búið að staðfesta neitt varðandi það að rauðir hundar hafi greinst hér á landi.

„Það hefur ekki neitt tilfelli verið staðfest inni á rannsóknarstofu eins og á nú og þarf að gera þegar menn grunar svona því það er mjög erfitt að greina sjúkdóminn bara með skoðun. Þannig að það þarf að taka blóðprufu og staðfesta að um rauða hunda sé að ræða en það hefur ekki verið gert,“ segir Þórólfur.

Hann segir embættið nú vinna í því að reyna að finna út úr því hvaða læknar það voru sem greindu sjúkdóminn og á hverju þeir byggja þá greiningu.

Mikill meirihluti þjóðarinnar er bólusettur fyrir rauðum hundum eða allt að 95 prósent. Aðspurður hvenær sjúkdómurinn greindist síðast hér á landi segir Þórólfur að árið 2012 hafi komið upp tvö staðfest tilfelli og þá hafi verið eitt vafatilfelli í fyrra. Að öðru leyti hafi rauðir hundar ekki greinst hér í mörg ár.

Rauðir hundar er veirusjúkdómur sem veldur oftast nær vægum einkennum hjá börnum en getur lagst þyngra á fullorðna, að því er segir á vef Landlæknisembættisins. Sjúkdómnum fylgja útbrot og hiti en Þórólfur segir sjúkdóminn slæman þar sem hann geti valdið alvarlegum sýkingum hjá fóstrum ef þungaðar konur smitast af rauðum hundum.

 

Þannig geti rauðir hundar valdið fósturskaða á borð við heyrnarskerðingu, vansköpun, blindu, hjartagalla, vaxtarskerðingu og jafnvel valdið fósturláti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×