Innlent

Í gæsluvarðhald grunaður um að hafa labbað út úr búð í Kringlunni í stolnum fötum

Maðurinn var handtekinn um helgina í Kringlunni.
Maðurinn var handtekinn um helgina í Kringlunni. Vísir/GVA
Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá því á þriðjudag þess efnis að síbrotamaður skuli sæta gæsluvarðhaldi þar til þann 30. maí næstkomandi.

Í úrskurði héraðsdóms, þar sem vísað er í greinargerð lögreglu, segir að um helgina hafi maðurinn verið handtekinn í Kringlunni eftir að óskað hafði eftir aðstoð lögreglu þar sem talið var að maðurinn hefði stolið fötum í verslun. Starfsmaður verslunarinnar sagði lögreglu að maðurinn hefði komið inn, týnt til fatnað og sett í tösku sem hann hafði með sér.

Þá hafi hann farið inn í mátunarherbergi með töskuna og klætt sig þar í fötin sem hann hafði tekið til og sett í töskuna. Maðurinn hafi því næst gengið að afgreiðslukassanum, skilið töskuna eftir og labbað út úr versluninni.

Öryggisverðir hafi beðið fyrir utan eftir manninum en gömlu fötin hans voru í íþróttatöskunni sem hann skildi eftir. Búið hafði verið að eiga við þjófavarnirnar á fötunum sem hann hafði farið í inni í versluninni.

Ætluð fíkniefni fundust svo á manninum þegar hann var færður í fangaklefa og játaði hann vörslu þeirra við skýrslutöku hjá lögreglu en neitaði þjófnaðinum á fatnaðinum.

Auk þess sem maðurinn er grunaðurinn um þjófnaðinn í versluninni er maðurinn grunaður um fjölda annarra þjófnaða á síðustu vikum og mánuðum.

Dóm Hæstaréttar má sjá í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×