Erlent

Lokakappræður Macron og Le Pen: Hnattvæðing og hryðjuverk í brennidepli

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Kappræðurnar í kvöld voru síðasta tækifæri beggja frambjóðenda til þess að sannfæra franska kjósendur.
Kappræðurnar í kvöld voru síðasta tækifæri beggja frambjóðenda til þess að sannfæra franska kjósendur. Vísir/EPA
Forsetaframbjóðendurnir Marine Le Pen og Emmanuel Macron tókust á í kvöld í lokasjónvarpskappræðum fyrir frönsku forsetakosningarnar sem haldnar verða á laugardaginn, 7. maí.

Þar bar hæst umræða frambjóðandanna um stöðu Frakklands í alþjóðasamfélaginu, hnattvæðingu og hryðjuverk. Fyrstu kannanir gefa til kynna að Frökkum hafi þótt Macron meira sannfærandi í kappræðunum. 

Í kappræðunum lagði Le Pen áherslu á að gera mikið úr bakgrunni Macron og fyrrum starfa hans sem bankamaður og stuðningi hans við „gegndarlausa hnattvæðingu“. Hún sagði Macron í raun vera „glottandi bankamann.“

Herra Macron er frambjóðandi hnattvæðingar sem er án hafta, Uber-væðingar, félagslegrar grimmdar, og slátrunar efnahagslegra hagsmuna Frakklands fyrir stórfyrirtæki.

Þá lagði hún mikið upp úr því að spyrða Macron við núverandi forseta landsins, Francois Hollande, en hann er meðal óvinsælustu forseta í sögu Frakklands. Macron var efnahagsráðherra í ríkisstjórn Hollande um skamman tíma.

Að sama skapi sakaði Macron hana um að leggja ekki á borðið neinar lausnir, heldur einungis benda á það sem illa hefði farið í Frakklandi. 

Aðferðir þínar miðast við að segja fullt af lygum, halda þig einfaldlega við að benda á það sem er ekki að ganga upp í landinu og ala þannig á ótta í hjörtum Frakka. 

Le Pen sakaði Macron jafnframt um að gefa hættunni af hryðjuverkum íslamskra öfgamanna, ekki nægilegan gaum. Macron svaraði því fullum hálsi og líkti Le Pen við snákaolíusölumann, þegar hann gagnrýndi tillögur Le Pen um lokun landamæra Frakklands.

Fyrstu skoðanakannanir á frammistöðu frambjóðandanna í kappræðunum, benda til þess að Macron hafi farið með nauman sigur af hólmi. Samkvæmt könnun BFM sjónvarpsstöðvarinnar, þóttu 63 prósentum Frakka, sem að Macron hefði verið meira sannfærandi í kvöld.

Báðir frambjóðendur hafa nú róið að því öllum árum að fá óákveðna kjósendur til þess að kjósa sig og var Le Pen til að mynda sökuð um að hafa stolið hluta úr ræðu Francois Fillon, frambjóðenda Repúblikana.

Kannanir benda flestar til stórsigurs Macron í kosningunum, sem fara fram á laugardaginn, en forsetaframbjóðendur Repúblikana og Sósíalista hafa hvatt stuðningsmenn sína til þess að styðja Macron, til að halda Le Pen frá völdum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×