Innlent

„Engum til gagns að loka augunum fyrir slæmri stöðu lögreglunnar”

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna.
Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna. vísir/daníel
Landssamband lögreglumanna segist furða sig á viðhorfi dómsmálaráðherra vegna gagnrýni sem lögreglustjórar hafa látið í ljós á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Sambandið lýsir yfir þungum áhyggjum yfir stöðu löggæslumála hér á landi, í ályktun sem það sendi frá sér í dag.

„Það er engum til gagns að loka augunum fyrir slæmri stöðu lögreglunnar. Ef stjórnvöld ætla lögreglu að gæta öryggi borgaranna þurfa að fara saman orð og efndir,” segir í ályktuninni.

Þá segir að öryggismál lögreglumanna séu í ólestri, lögregluna skorti búnað, mannaflaþörf sé ekki uppfyllt auk þess sem mikið vanti upp á að fjárheimildir séu í takt við þær kröfur sem gerðar séu til lögreglu.

„Lögreglumenn töldu árið 2012 að botninum hlyti að vera náð þegar þeir lýstu því yfir að hægt væri að leggja niður lögregluna í þáverandi mynd, síðan hefur ástandið lítið breyst.  Nú er unnið að því að skrapa saman notuðum fötum fyrir afleysingamenn lögreglu, ekki hefur tekist að endurnýja lögreglubifreiðar samkvæmt áætlun auk þess sem lögreglumenn eru einir að störfum, langt frá allri aðstoð.”

Lögreglumenn segja þetta ekki boðlegt í íslensku samfélagi og skora á stjórnvöld að grípa þegar í stað til úrbóta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×