Erlent

Farið fram á gæsluvarðhald yfir fyrrverandi kærasta Tovu

Atli Ísleifsson skrifar
Vitað var að Tova var á leið á skemmtun nálægt Hudiksvall á laugardagskvöldinu.
Vitað var að Tova var á leið á skemmtun nálægt Hudiksvall á laugardagskvöldinu. Vísir/Getty
Saksóknarar í Svíþjóð hafa farið fram á gæsluvarðhald yfir 22 ára manni vegna gruns um að hann hafi orðið hinni nítján ára Tovu Moberg að bana um helgina. Hinum tveimur mönnunum sem voru í haldi lögreglu hefur verið sleppt.

Sænskir fjölmiðlar segja að maðurinn sem grunaður er um morðið á að hafa átt í ástarsambandi við Tovu sem fannst látin í stöðuvatni við bóndabæ nálægt Hudiksvall þar sem síðast var vitað að hún var á lífi.

Foreldrar Tovu höfðu samband við lögreglu á sunnudag eftir að hún hafði ekki skilað sér heim kvöldið eftir að hún hafði farið út að skemmta sér. Var í kjölfarið ákveðið að lýsa eftir henni í fjölmiðlum.

Var glöð og leið vel

Vitað var að Tova var á leið á skemmtun nálægt Hudiksvall á laugardagskvöldinu. Hudiksvall er tæplega þrjú hundruð kílómetrum norður af Stokkhólmi. Sama kvöld hringdi hún í vin sinn og tilkynnti honum að hún væri stödd við bóndabæ í nágrenninu. Á hún að hafa verið glöð og liðið vel, en þetta var í síðasta sinn sem spurðist til hennar á lífi.

Á mánudeginum var fjölgað í leitarliði lögreglu og var stórt svæði í kringum bóndabæinn girt af þar sem notast við þyrlur og hunda við leitina. Lík hennar fannst svo í stöðuvatni við bæinn aðfaranótt þriðjudagsins, en vitað er að hinn grunaði tengist bóndabænum á einhvern hátt.

Kærður fyrir að beita hana ofbeldi

Enn hefur ekki verið greint frá því hvað olli dauða stúlkunnar og er niðurstöðu réttarlæknis enn beðið. Þó hefur lögregla greint frá því að hún hafi verið með sýnilega áverka á líkamanum án þess að útskýra það nánar.

Aðfaranótt mánudagsins voru þrír menn handteknir vegna gruns um að tengjast hvarfinu, en á þeim tíma hafði lík hennar ekki fundist.

Lögregla hefur nú farið fram á að einn mannanna verði úrskurðaður í gæsluvarðhaldi. Segja þeir sem til þekkja að maðurinn og Tova hafi nýverið slitið sambandi sínu, en í lok mars hafði maðurinn verið kærður til lögreglu þar sem hann var sagður hafa beitt Tovu ofbeldi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×