Elías Már Ómarsson fagnaði sigri í Íslendingaslag í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. IFK Gautaborg vann þá 4-0 útisigur á GIF Sundsvall.
Kristinn Steindórsson var í byrjunarliði Sundsvall og Kristinn Freyr Sigurðsson kom inná sem varamaður í seinni hálfleik.
Kristinn Freyr komst bara á blað þegar hann gekk tvisvar sinnum í rangstöðugildru Gautaborgarliðsins þær 26 mínútur sem hann spilaði.
Elías Már Ómarsson kom inná sem varmaður hjá IFK Gautaborg á 80. mínútu en þá var staðan orðin 3-0. Elías Már kom inn fyrir Tobias Hysén sem hafði skorað tvö mörk í leiknum.
Gautaborg náði að bæta við einu marki eftir að Elías Már kom inná völlinn en það skoraði Mads Albæk. Fyrri þrjú mörkin komu á 32., 34. og 45. mínútu leiksins og staðan var því orðin 3-0 í hálfleik. Emil Salomonsson skoraði mark númer tvö úr vítaspyrnu.
IFK Gautaborg var ekki búið að fá nema eitt stig út úr síðustu þremur útileikjum sínum en þrefaldaði þann stigafjölda í kvöld.
Þetta var fyrsta tap Sundsvall í sænsku úrvalsdeildinni síðan um miðjan apríl en liðið var búið að leika sex leiki í röð án þess að tapa og var tveimur sætum fyrir ofan Gautaborgarliðið í töflunni.
Fyrsta tapið síðan um miðjan apríl var skellur á heimavelli
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
