Erlent

Japanskeisara gert mögulegt að afsala sér völdum

Atli Ísleifsson skrifar
Hinn 83 ára Akihito tók við embættinu árið 1989.
Hinn 83 ára Akihito tók við embættinu árið 1989. Vísir/AFP
Japanska þingið samþykkti í morgun lagafrumvarp sem heimilar Akihito Japanskeisara að afsala sér völdum. Ákveði Akihito að afsala sér völdum verður hann fyrsti japanski keisarinn til að stíga af valdastóli í tvö hundruð ár.

Hinn 83 ára Akihito tilkynnti á síðasta ári að hár aldur og hrakandi heilsa hafi gert honum erfitt fyrir að sinna opinberum skyldum sínum. Japönsk löggjöf gerði hins vegar ekki ráð fyrir að hann gæti afsalað sér völdum.

Búist er við að Akihito afsali sér völdum síðla árs 2018 og mun ríkisstjórnin nú hefja undirbúning valdaskiptanna. Naruhito krónprins, sem er 57 ára, mun taka við embætti keisara af föður sínum, Akihito.

Akihito, sem tók við embættinu árið 1989, hefur gengist undir hjartaaðgerð og meðferð vegna blöðruhálskrabbameins á síðustu árum.

Japanskeisari hefur hefur engin pólitísk völd en sinnir ákveðnum opinberum erindagjörðum, eins og að taka á móti erlendum þjóðarleiðtogum.

Mikill meirihluti Japana styður að keisara eigi að vera kleift að stíga af valdastóli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×