Erlent

Óska eftir myndböndum til að „koma í veg fyrir“ samkynhneigð

Kjartan Kjartansson skrifar
Réttindabarátta LGBT-fólks á undir högg að sækja í Malasíu. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Réttindabarátta LGBT-fólks á undir högg að sækja í Malasíu. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki beint. Vísir/EPA
Yfirvöld í Malasíu liggja undir harðri gagnrýni réttindasamtaka LGBT-fólks eftir að heilbrigðisráðuneytið þar hrinti af stað myndbandasamkeppni fyrir ungt fólk um hvernig sé hægt að stoppa samkynhneigð.

Myndböndunum er ætlað að kanna hvernig sé hægt að koma í veg fyrir og stjórna því sem stjórnvöld kalla „kynvillu“, álitamál sem tengjast honum, afleiðingar hans og hvernig fólk geti leitað sér hjálpar, samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

„Stjórnvöld sjálf áttavillt“

Í leiðbeiningum fyrir samkeppnina eru samkynhneigðir, transfólk og „strákastelpur“ nefndar sem dæmi um fólk sem þjáist af „kynvillu“.

„Sú staðreynd að að þau skuli flokka LGBT-fólk saman sem „kynvillt“ sýnir að stjórnvöld eru sjálf mjög áttavillt,“ segir Pang Khee Teik, baráttumaður fyrir réttindum LGBT-fólks.

Stjórnvöld hafna því að samkeppnin beinist gegn neinum sérstökum hópi eða að hún stuðli að mismunun fólks. Samkeppninni er beint að fólki á aldrinum 13-24 ára.

Samkynhneigð er ólögleg í Malasíu, bæði samkvæmt veraldlegum og trúarlegum lögum, að viðlagðri fangelsisrefsingu og jafnvel líkamlegum refsingum.

Þannig töfðu malasísk yfirvöld frumsýningu Disney-myndarinnar Fríða og dýrið á þeim forsendum að „samkynhneigð stund“ ætti sér stað í henni. Disney neitaði að breyta atriðinu og malasíska kvikmyndaeftirlitið lét undan að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×