Innlent

Um 3.400 missa barnabætur í ár

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Samkvæmt bráðabirgðatölum fækkar þeim sem fá barnabætur um 3.431 milli ára. Hafa því rúmlega 15 þúsund foreldrar misst bæturnar á síðustu fjórum árum. 

Foreldrum sem eiga rétt á barnabótum hefur fækkað hratt á síðustu árum. Voru þeir tæplega 56.700 árið 2013 en samkvæmt bráðabirgðatölum þessa árs fá 41.300 greiddar bætur.

Þetta gerir um þrjú til fimm þúsund manna fækkun á hverju ári.

Foreldrar sem eiga barn undir átján ára aldri eiga rétt á barnabótum og útskýrir lækkandi fæðingartíðni ekki muninn. Árið 2013 fæddust hér á landi um 4.300 börn og voru þau rúmlega fjögur þúsund í fyrra. Til samanburðar fæddust 4.100 börn árið 1999, eða fyrir átján árum síðan.

Skýringa er frekar að leita í því að tekjuskerðingarmörk hafa ekki þróast í takti við laun og hefur skerðingarhlutfall jafnframt verið aukið. Niðurstaðan er minni útgjöld til barnabóta.

Tekjuskerðingarmörk voru óbreytt frá 2013 til 2016 en voru síðan hækkuð um 12,5% á þessu ári. Nær hækkunin þó ekki í skottið á launahækkunum liðinna ára þar sem laun hafa hækkað um þriðjung á sama tíma.

Samkvæmt nýjum tekjuskerðingarmörkum sem tóku gildi á þessu ári falla bætur alfarið niður hjá hjónum með eitt barn séu mánaðartekjur hvors þeirra yfir 434 þúsund krónum. Séu hjónin með tvö börn mega tekjurnar ekki fara yfir 535 þúsund krónur.

Eru þetta nákvæm meðallaun Íslendings árið 2015 samkvæmt Hagstofunni. Samkvæmt nýlegum tölum frá Hagfræðideild Landsbanka Íslands nemur heildarhækkun launa á sama tíma hins vegar 20,3% og falla bæturnar því niður hjá hjónum með tekjur sem eru töluvert undir meðaltali




Fleiri fréttir

Sjá meira


×