Innlent

Lögreglan lokaði Ölfusárbrú og maðurinn ók á fullri ferð út í ána

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Maðurinn komst sjálfur út úr bílnum og upp á þak hans. Þar setti hann sig í björgunarlínu og beið þess að verða bjargað á bát.
Maðurinn komst sjálfur út úr bílnum og upp á þak hans. Þar setti hann sig í björgunarlínu og beið þess að verða bjargað á bát.
Mikil hætta skapaðist í morgun þegar lögregla veitti fólksbíl eftirför frá Vogahverfi í Reykjavík að Ölfusárbrú á Selfossi. Þetta segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en mikil umferð var á meðan á eftirförinni stóð og er mildi að ekki fór verr.

Eftirförinni lauk þegar ökumaðurinn keyrði út í Ölfusá en búið var að loka brúnni þannig að hann gat ekki keyrt yfir hana. Hann ók því á fullri ferð vinstra megin við brúna út í ána, þar sem bílinn rak undir brúna þar til hann steytti á steini.

Líðan hans er eftir atvikum góð; hann var kaldur, með skrámur og einhver eymsli en komst sjálfur út úr bílnum og upp á þak bílsins þar sem hann var í línu frá bjögunarsveitum og beið eftir að verða bjargað á bát.

Aðspurður segir Ásgeir að ökumaður bílsins hafi keyrt mest á 140 kílómetra hraða á klukkustund og var hraðinn slíkur að lögreglan gat ekki stöðvað för bílsins með því að aka utan í hann.

„Það var sett upp naglamotta í nágrenni við Hveragerði en hann náði að aka framhjá henni,“ segir Ásgeir í samtali við Vísi.

Þá tókst heldur ekki að snúa bifreiðinni við.

„Hann var frá því að vera á 50 til 60 kílómetra hraða og alveg upp í 140 kílómetra hraða á klukkustund. Það var mikil umferð og því skapaðist mikil almannahætta við þetta og það má því segja að þetta hafi farið eins vel og hægt var.“

Ásgeir segir að sér sé ekki kunnugt um að maðurinn hafi ekið utan í aðra bíla á meðan á eftirförinni stóð.

Hann segir ekki liggja fyrir hvort að maðurinn hafi verið undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna en segir að málið verði nú rannsakað af lögreglu og meðal annars tekin sýni úr manninum. Eftirförin hófst þegar hann sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu í Reykjavík.

Hér fyrir neðan má sjá myndband af því þegar manninum var bjargað.


Tengdar fréttir

Lögreglan í eftirför á Hellisheiði

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, lögreglan á Suðurlandi og sérsveitin eru nú í eftirför á leiðinni austur á Hellisheiði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×