Fótbolti

Aalesund tapaði stigum gegn næstneðsta liðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslendingaliðið Aalesund er án sigurs í síðustu þremur leikjum í norsku úrvalsdeildinni.

Í dag sótti Aalesund Kristiansund, sem er í næstneðsta sæti deildarinnar heim. Leikar fóru 1-1.

Suður-Afríkumaðurinn Lars Veldwijk kom Aalesund í 0-1 á 22. mínútu og þannig var staðan í hálfleik.

Eftir klukkutíma leik urðu Adam Erni Arnarsyni á slæm mistök þegar hann reyndi að skalla boltann aftur á Andreas Lie, markvörð Aalesund. Benjamin Stokke, framherji Kristiansund, náði boltanum og jafnaði metin í 1-1 sem urðu lokatölur leiksins.

Adam spilaði allan leikinn í vörn Aalesund sem og Daníel Leó Grétarsson. Aron Elís Þrándarson var einnig í byrjunarliðinu en var tekinn af velli á 73. mínútu.

Aalesund er í 5. sæti deildarinnar með 19 stig eftir 13 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×