Erlent

Háttsettur bandarískur þingmaður skotinn á hafnaboltaæfingu

Atli Ísleifsson og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Þingmaður fulltrúadeildar bandaríska þingsins, Steve Scalise, var skotinn á hafnaboltaæfingu í Virginíu-fylki í Bandaríkjunum í dag.
Þingmaður fulltrúadeildar bandaríska þingsins, Steve Scalise, var skotinn á hafnaboltaæfingu í Virginíu-fylki í Bandaríkjunum í dag. Vísir/Afp
Repúblikaninn Steve Scalise, þingmaður fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, var skotinn á hafnaboltaæfingu í Alexandríu í Virginíu-ríki í Bandaríkjunum í dag. Hann var við æfingar ásamt fleiri þingmönnum Repúblikanaflokksins. Fox News greinir frá.

Lögregla rannsakar nú árásina, sem hófst um klukkan 7:15 í morgun að staðartíma, en Scalise var við æfingar ásamt flokksbræðrum sínum fyrir árlegan hafnaboltaleik gegn Demókrötum. CNN greinir frá því að milli fimmtíu og hundrað skotum hafi verið hleypt af.

Hinn 51 árs Scalise er sagður hafa verið skotinn í mjöðmina og þá er einn starfsmaður fulltrúadeildar þingsins talinn hafa verið skotinn í bringuna. Árásarmaðurinn er talinn hafa verið hvítur karlmaður.

Alls hafa fimm verið fluttir á sjúkrahús: Scalise, tveir lögregluþjónar, starfsmaður fulltrúadeildar þingsins og árásarmaðurinn sem var skotinn niður af lögreglu. Við komu á spítalann ræddi Scalise við eiginkonu sína í síma.

Scalise er þingmaður fyrir Louisiana-ríki og hefur gegnt stöðu „svipu“ (e. whip) í þinginu. Hlutverk þeirra er að halda greiða úr samskiptum á milli þingmanna og leiðtoga þeirra. Þá sjá þeir til þess að halda uppi flokksaga þegar að kjósa á um frumvörp. 

Hann tók sæti í fulltrúadeild Bandaríkjaþings árið 2008.

Uppfært 15:47:

Donald Trump Bandaríkjaforseti greindi frá því fyrir stundu að árásarmaðurinn hafi látið lífið af völdum sára sinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×