Handbolti

Skoruðu ekki síðustu fimm mínúturnar en náðu jafntefli við Svía

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Guðmundsson var markahæstur í íslenska liðinu.
Ólafur Guðmundsson var markahæstur í íslenska liðinu. Vísir/EPA
Íslenska handboltalandsliðið gerði 23-23 jafntefli við Svía á Gjensidige æfingamótinu í Noregi í dag en þetta var þriðji og síðasti leikur íslenska liðsins á mótinu.

Jafntefli dugði íslenska liðinu ekki til að taka annað sætið af Svíum og því enda íslensku strákarnir í þriðja sæti. Norðmenn eru líka búnir að vinna mótið þrátt fyrir að þeir eigi eftir leik við Pólverja seinna í dag.

Ólafur Guðmundsson var markahæstur í íslenska landsliðinu með fimm mörk en Ómar Ingi Magnússon skoraði fjögur mörk.  Ágúst Elí Björgvinsson varði mark Íslands í seinni hálfleik og varði þá 8 af 18 skotum Svía samkvæmt tölfræði norska handboltasambandsins eða 44 prósent.  Sveinbjörn Pétursson varði 6 af 19 skotum í fyrri hálfleiknum.

Svíar tryggðu sér jafntefli með því að skora tvö síðustu mörkin í leiknum en íslenska liðið skoraði ekki síðustu fimm mínúturnar í leiknum eftir að hafa verið 23-21 yfir.

Josef Pujol fékk meira að segja tækifæri til að tryggja Svíum sigurinn en lokaskot leiksins hafnaði í stönginni.

Svíar voru einu marki yfir í hálfleik, 13-12, og voru 21-20 yfir þegar tíu mínútur voru eftir. Þá kom frábær 3-0 kafla Íslands sem kom íslenska liðinu í frábæra stöðu sem strákarnir misstu síðan frá sér í lokin.

Íslenska liðið tapaði fyrsta leiknum á móti heimamönnum í Noregi en vann svo góðan þriggja marka sigur á Pólverjum.



Svíþjóð – Ísland 23-23 (13-12)



Mörk Íslands skoruðu: Ólafur Andrés Guðmundsson 5, Ómar Ingi Magnússon 4, Geir Guðmundsson 3, Gunnar Steinn Jónsson 2, Vignir Stefánsson 2, Atli Ævar Ingólfsson 2, Sigvaldi Guðjónsson 1, Arnar Freyr Arnarsson 1, Tandri Konráðsson 1, Daniel Þór Ingason 1, Arnar Frey Ársælsson 1.

Varin skot: Ágúst Elí Björgvinsson 8, Sveinbjörn Pétursson 6.


Tengdar fréttir

Allt annar varnarleikur og sigur á Pólverjum

Íslenska karlalandsliðið í handbolta bar sigurorð af því pólska, 24-21, á Gjensidige Cup, fjögurra liða æfingamóti í Noregi. Staðan í hálfleik var 13-12, Íslandi í vil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×