Erlent

Gladdist yfir árásinni á Scalise

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Steve Scalise, þingmaður Repúblikanaflokksins, var kjörinn á þing fyrir Louisiana árið 2008.
Steve Scalise, þingmaður Repúblikanaflokksins, var kjörinn á þing fyrir Louisiana árið 2008. Vísir/AFP
Phil Montag, fyrrum stjórnarmanni tæknideildar Demókrataflokksins í Nebraska hefur verið sagt upp störfum fyrir að hafa sagst gleðjast yfir því að Steve Scalise, þingmaður Repúblikanaflokksins, hafi verið skotinn. Ummælin náðust á upptöku sem búið er að hlaða inn á Youtube. BBC greinir frá þessu.

Montag dró ekkert undan í umfjöllun sinni um Scalise. Ummæli hans náðust á upptöku sem samflokkskona hans, Chelsey Gentry-Tipton, fangaði. Á upptökunni má heyra Montag segja: „Ég hata þennan mannfjanda. Ég er glaður yfir því að hann var skotinn.“

Hann sakar Scalise um að hindra aðgang landsmanna að heilbrigðisþjónustu með því að berjast fyrir afnámi „Affordable Care Act“ sem Barack Obama kom á í sinni stjórnartíð.

Á upptökunni má meðal annars heyra Montag segja: „Ég vildi að hann væri dauður.“

Upptakan með ummælum Montags var, sem fyrr segir, sett á Youtube. Í kjölfarið var hann leystur frá störfum. 

Montag dregur í land með ummæli sín í samtali við World Herald og segir hann ummælin tekin úr samhengi. Upptakan hafi sýnt lítið brot af samtali sem hafi staðið yfir í hálftíma til einnar klukkustundar. Hann hafi orðið skelfingu lostinn þegar hann frétti af árásinni á þingmanninn. Hann óskaði sér sannarlega ekki dauða Scalise.

Bandaríska Alríkislögreglan við störf á vettvangi skotárásarinnar. Þingmaðurinn Steve Scalise hlaut skot í mjöðm og þurfti að gangast undir skurðaðgerð.Vísir/Getty
James T. Hodgkinson skaut á hóp fólks sem var á æfingu fyrir hafnaboltamót sem halda átti í góðgerðarskini. Til stóð að þingmenn Repúblikana og Demókrata myndu etja kappi þennan dag. Árásarmaðurinn hleypti af byssu sinni með þeim afleiðingum að fimm manns særðust. Þingmaðurinn Scalise var á meðal þeirra. Hann varð fyrir skoti í mjöðmina og þurfti að gangast undir skurðaðgerð.


Tengdar fréttir

Vitni að skotárásinni á þingmenn birtir myndband

Yfir fimmtíu skot heyrast á myndbandi frá vitni að skotárásinni á bandaríska þingmenn sem fjölmiðlar hafa birt. Sex eru sagðir særðir, þar á meðal þingflokksformaður repúblikana sem er talinn í lífshættu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×