Lögreglumaðurinn, Sigurður Árni Reynisson, var sakaður um að hafa ráðist á fangann og skellt höfði hans og búk í gólfið þegar verið var að flytja hann fyrir dóm á síðasta ári, en fanginn var grunaður um að hafa tekið þátt í slagsmálum þar sem hnífum var beitt. Sigurður játaði sök að hluta en neitaði að áverkarnir á fanganum væru af hans völdum.
Atvikið náðist á myndbandsupptöku og að mati dómsins var ekki séð að fanginn hefði veitt mótspyrnu við handtökuna í fangaklefanum, þó hann hafi einu sinni rykkt handleggjunum til.
Þá hafi þau fúkyrði sem fanginn lét falla við handtökuna ekki gefið lögreglumanninum tilefni til að bregðast við með þeim hætti sem hann gerði. Var hann því sakfelldur fyrir árásina, sem og fyrir að hafa farið offari og ekki gætt lögmætra aðferða við meðferð fangans.
Blóðugur og froðufellandi
Forsaga málsins er sú að fanginn var handtekinn að kvöldi 15. maí 2016 og vistaður í fangaklefa um nóttina. Hann var grunaður um að hafa, ásamt öðrum, tekið þátt í slagsmálum þar sem hnífum hafði verið beitt.
Samkvæmt lögregluskýrslu var fatnaður mannsins blóðugur og hann sjálfur blóðugur á höndum og líkama, bólginn í andliti og með sár á bringu. Þá hafi hann verið í annarlegu ástandi og froðufellandi.

Sigurður sagði fangann í kjölfarið hafa gert sig líklegan til að skalla sig og því hafi hann brugðist við með því að snúa fangann niður og kyrrsetja hann, og lýsti atvikum að öðru leyti með svipuðum hætti og greint er frá í ákæru.
Skráður hættulegur
Sigurður Árni viðurkenndi fyrir dómi að hafa gengið of langt. Maðurinn hafi verið merktur sem hættulegur einstaklingur í lögreglukerfum og að sú staðreynd, sem og þau fúkyrði sem fanginn lét falla, hafi gert sig órólegan og orsök þess að sér hefðu orðið á mistök.
Lætin í fanganum hefðu stigmagnast eftir því sem leið á og kvaðst Sigurður þá hafa fundið fyrir óróleika og verið viðbúinn öllu. Kvaðst hann hafa rætt við yfirmann sinn strax daginn eftir og greint honum frá því sem gerðist. Þá hafi hann óskað eftir því að myndbandið úr fangamóttökunni yrði varðveitt.
Árásin tilefnislaus
Dómurinn taldi að atlaga Sigurðar að fanganum hafi verið tilefnislaus. Ekkert í fari fangans hafi gefið tilefni til árásarinnar. Hins vegar var litið til þess að Sigurður hefur ekki hlotið dóm áður, og tekið er fram að hann hafi verið farsæll og vel metinn í starfi. Þá hafi hann greint yfirmanni sínum frá því sem hafði gerst og ritað um það skýrslu.
Jafnframt beri að nefna játningu Sigurðar og viðurkenningu á bótaskyldu. Refsing hans sé því ákveðin sextíu daga skilorðsbundið fangelsi til tveggja ára.
Fanginn fór fram á tvær milljónir króna í skaðabætur. Um það segir dómurinn:
„Brotaþoli var bundinn og varnarlaus í höndum ákærða og sést vel á myndbandinu að hann reynir ekki að veita mótspyrnu á nokkurn hátt. Þá hlaut brotaþoli áverka af völdum ákærða. Miskabætur til handa brotaþola eru hæfilega ákveðnar 400.000 krónur.“
Sigurður Árni hefur áfrýjað dómnum til Hæstaréttar. Honum var vikið tímabundið frá störfum á meðan mál hans var til meðferðar, en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort honum verði alfarið vikið frá störfum, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.
Lögreglumaðurinn sem ákærður var fyrir harkalega handtöku á Laugavegi árið 2013 var dæmdur í þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi vegna málsins og í framhaldinu vikið úr starfi.