Erlent

Scalise aftur kominn á gjörgæslu

Atli Ísleifsson skrifar
Steve Scalise er þingmaður Louisiana í fulltrúadeild Bandaríkjaþings.
Steve Scalise er þingmaður Louisiana í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Vísir/AFP
Bandaríski þingmaðurinn Steve Scalise er kominn aftur á gjörgæslu MedStar sjúkrahúsinu í bandarísku höfuðborginni Washington D.C. eftir að hafa fengið sýkingu.

Scalise særðist alvarlega eftir að hafa verið skotinn í mjöðmina á hafnaboltaæfingu í borginni Alexandriu, sunnan við Washington, þann 14. júní síðastliðinn.

Scalise hafði verið á batavegi á síðustu vikum eftir að hafa gengist undir nokkrar aðgerðir vegna sára sinna.

Auk Scalise voru aðstoðarmaður og tveir lögreglumenn skotnir af árásarmanninum, hinum 66 ára James Hodgkinson frá Illiois, sem var svo sjálfur skotinn til bana af lögreglu. 

Scalise var við æfingar ásamt öðrum Repúblikönum fyrir hafnaboltaleik gegn þingmönnum Demókrata sem fram fer á sumri hverju og peningum er safnað til góðgerðarmála þegar hann var skotinn.

Scalise, sem er þingmaður Louisiana í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, er fyrsti þingmaðurinn sem verður fyrir skoti síðan Gabby Giffords var skotin í höfuðið árið 2011. Giffords lífði af árásina þar sem sex aðrir létust.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×