Lífið

Gaf líf sitt og sál í fótboltann

Sigríður Inga Sigurðardóttir skrifar
Efla
Fótbolti hefur lengi spilað stórt hlutverk í lífi Elfu Bjarkar. Hún æfði fótbolta í 18 ár, var fótboltaþjálfari um tíma og er núna móðir fótboltastelpu. Hún hefur fylgst vel með íslenska kvennalandliðinu og ætlar til Hollands ásamt fjölskyldu sinni til að fylgjast með stelpunum okkar keppa á EM í knattspyrnu.

„Við keyptum okkur miða síðasta haust og erum mjög spennt yfir að fara. Í fyrra fórum við ekki á EM karla svo Ingibjörg Erla, eldri dóttir mín, tók ekki annað í mál en að við færum á EM kvenna. Fyrir henni er þetta algjörlega sambærilegt, sem mér finnst sérlega ánægjulegt. Hún æfir fótbolta með 5. flokki Stjörnunnar en sú yngri, Rósa María, á enn eftir að finna sína íþrótt,“ segir Elfa Björk.

Æfði fótbolta í átján ár

Sjálf var Elfa Björk aðeins sex ára þegar hún hnýtti á sig fótbolta­skóna í fyrsta sinn og skildi þá síðan ekki við sig fyrr en hún var orðin 24 ára gömul og nýbökuð móðir. „Eldri bræður mínir voru í boltanum og mig langaði að gera það sama og þeir. Vinkonur mínar ákváðu líka að æfa fótbolta og við æfðum undir styrkri leiðsögn Auðar Skúladóttur og Helgu Helgadóttur upp alla yngri flokkana. Síðar varð Auður samherji okkar í úrvalsdeildinni, sem var mjög gaman. Ég var ekki nema 14 ára þegar ég byrjaði að spila í úrvalsdeildinni og ég gerði fátt annað en að spila fótbolta þar til ég eignaðist mitt fyrsta barn,“ rifjar Elfa Björk upp.

Á ferlinum spilaði hún nokkra leiki með A-landsliðnu sem er henni ógleymanlegt. „Flestir af mínum landsleikjum voru þó með yngri landsliðunum. Ég er ánægð með að hafa alist upp í því umhverfi en það var mjög vel haldið utan um liðin. Þegar ég lít til baka er gaman að hafa fengið tækifæri til að spila fótbolta og ferðast um Evrópu í leiðinni.“

Elfa Björk telur mikilvægt að hvert og eitt barn finni sína fjöl í íþróttum.EYÞÓR
Fékk námsstyrk

Að loknu stúdentsprófi lá leið Elfu Bjarkar til Bandaríkjanna þar sem hún stundaði nám í viðskiptafræði en hún fékk námsstyrk út á fótboltann. „Ásthildur Helgadóttir fótboltakona fór í nám í Bandaríkjunum út á fótboltastyrk og hún ruddi veginn fyrir okkar hinar. Við vorum margar sem fetuðum í fótspor hennar og fórum út í nám. Þar kynntumst við meira æfingaálagi og meiri áherslu á hlaupagetu og gott líkamlegt form. Ég er viss um að það hafi skilað sér áfram og haft áhrif á deildina þegar við komum til baka heim úr námi,“ segir hún.

Þegar Elfa Björk lítur til baka yfir fótboltaferilinn segir hún að dvölin í Bandaríkjunum hafi verið eftirminnilegust en fótboltinn hafi líka haft áhrif á hana sem manneskju. „Í mörg ár var fótboltinn stór hluti af lífi mínu. Ég lærði að vera hluti af liði og vera góður liðsfélagi. Það hefur t.d. klárlega hjálpað mér mikið í vinnu. Vinnuveitendur meta það mikils að ráða íþróttafólk til starfa sem kann að vera hluti af heild,“ segir Elfa Björk, sem mun hefja störf við fyrirtækjaráðgjöf hjá VÍS um miðjan ágúst.

Gaf allt í boltann

Eftir að fótboltaferlinum lauk heldur Elfa Björk sér í góðu formi með því að taka tarnir í ræktinni og tabata er í mestu uppáhaldi hjá henni. „Ég gaf líf mitt og sál í fótboltann og eftir það finnst mér erfitt að festa mig við eina íþrótt. Mér finnst gaman að ganga á fjöll og fara á skíði og leik mér stundum í fótbolta og blaki. Um daginn fór ég í sjósund í fyrsta sinn og fannst það frábært. Ég mæli heilshugar með því.“

Elfa Björk hvetur allar ungar fótboltakonur til að fara í nám út á fótboltastyrk, fái þær tækifæri til þess. „Ég tel mig gæfusama að hafa fengið upplifa þetta allt saman. Ég hef verið iðkandi, þjálfari og nú foreldri barna í íþróttum og mér finnst mikilvægt að foreldrar leyfi börnunum sínum að prófa sig áfram að finna þá íþrótt sem þau hafa mesta ánægju af. Eldri krakkar og foreldrar mega svo ekki gleyma því að það eru hæðir og lægðir hjá öllu íþróttafólki og það er alveg eðlilegt. Ekki gefast upp þótt á móti blási,“ segir hún að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×