Fótbolti

Real Madrid lánar James til Bayern

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
James Rodriguez er fyrirliði kólumbíska landsliðsins.
James Rodriguez er fyrirliði kólumbíska landsliðsins. Vísir/Getty
Kólumbíumaðurinn James Rodriguez spilar ekki í spænsku eða ensku úrvalsdeildinni á komandi tímabili. Real Madrid ætlar nefnilega að lána kappann til Þýskalands.

Þýska stórliðið Bayern München hefur staðfest það í fréttatilkynningu að félagið fái James Rodriguez til sín á tveggja ára lánsamning.

Samningurinn gildir til 30. júní 2019 og Bayern hefur í framhaldinu forkaupsrétt á leikmanninum sem kostaði Real Madrid þegar félagið keypti hann frá Mónakó fyrir 80 milljónir evra sumarið 2014.

James Rodriguez mun skrifa undir samninginn um leið og hann hefur staðist læknisskoðun.  Hann heldur upp á 26 ára afmælið sitt á morgun og er þetta því einskona afmælisgjöf.

Hann var mjög óánægður undir stjórn Zinedine Zidane hjá Real Madrid enda oftar en ekki á varamannabekknum hjá liðinu. James lék í þrjú tímabil með Real og skoraði 28 mörk í 77 leikjum í spænsku úrvalsdeildinni og 36 mörk í 110 leikjum í öllum keppnum.

James Rodriguez var í myndinni hjá bæði Manchester United og Chelsea en nú verður ekkert af því að hann spili í ensku úrvalsdeildinni á komandi tímabili.

James Rodriguez þekkir vel til Carlo Ancelotti, stjóra Bayern, en undir hans stjórn fór James á kostum með Real Madrid liðinu 2014-15.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×