Erlent

Forsætisráðherra Íraka lýsir yfir fullnaðarsigri í Mósúl

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Haider al-Abadi heimsótti herstöð í vesturhluta Mósúl í Írak í gær.
Haider al-Abadi heimsótti herstöð í vesturhluta Mósúl í Írak í gær. vísir/epa
Haider al-Abadi, forsætisráðherra Íraks, heimsótti borgina Mósúl í gær til að óska íröskum hermönnum til hamingju með að hafa náð borginni úr höndum hersveita Íslamska ríkisins. Í tilkynningu frá skrifstofu forsætisráðherrans segir að í heimsókninni hafi hann tilkynnt um frelsun borgarinnar.

BBC fréttastofan segir að íraskar hersveitir hafi, með stuðningi flughers Bandaríkjanna, barist allt frá 17. október síðastliðnum til að ná Mósúl aftur undar sína stjórn. Hersveitir Íslamska ríkisins náðu yfirráðum í borginni í júní 2014.

Þótt her írösku stjórnarinnar hafi náð borginni á sitt vald geisa þar bardagar enn þar sem síðustu herliðar Íslamska ríkisins hafa þráast við að gefast upp. Í gær mátti heyra skothvelli.

Í fréttum íraskra miðla, sem BBC vísar til, kemur fram að þrjátíu hermenn Íslamska ríkisins hafi farist þegar þeir fleygðu sér í ána Tígris á flótta undan stjórnarhernum í gær.

Íraska stjórnin tilkynnti í janúar að hún hefði náð austurhluta Mósúl á sitt band en erfiðara var að ná tökum á vesturhlutanum.

BBC segir að 900 þúsund manns hafi flúið borgina frá árinu 2014, en það er helmingur fjöldans sem bjó þar áður en átök brutust út.

Á sama tíma og stjórnvöld lýstu yfir sigri í Mósúl vöruðu Barnaheill við áhrifum stríðs á sálarlíf barna sem sætu eftir með minningar af miklu ofbeldi og morðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×