Erlent

Rússar reyndu að njósna um Macron í gegnum Facebook

Kjartan Kjartansson skrifar
Facebook sagði frá því í apríl að fyrirtækið hefði lokað reikningum sem dreifðu lygafréttum í aðdraganda forsetakosninganna.
Facebook sagði frá því í apríl að fyrirtækið hefði lokað reikningum sem dreifðu lygafréttum í aðdraganda forsetakosninganna. Vísir/AFP
Njósnarar rússneskra stjórnvalda reyndu að njósna um Emannuel Macron, forseta Frakklands, í kosningabaráttunni þar í landi með því að búa til gervimanneskjur á samfélagsmiðlinum Facebook.

Reuters-fréttastofan greinir frá þessu og hefur eftir bandarískum þingmanni og fleiri heimildamönnum sem hafi fengið kynningu á málinu.

Rússarnir eru sagðir hafa búið til á þriðja tug Facebook-reikninga til að fylgja með starfsmönnum framboðs Macron og fleiri nánum bandamönnum hans. Macron hafði öruggan sigur á Marine Le Pen, frambjóðandi hægriöfgamanna, í seinni umferð forsetakosninganna í maí.

Forsvarsmenn Facebook staðfestu við Reuters að þeir hefðu lokað reikningum sem voru ætlaðir til njósna í Frakklandi. Heimildir Reuters herma að alls hafi um 70.000 reikningum verið lokað.

Áður hafði samfélagsmiðillinn greint frá aðgerðum til að loka reikningum sem voru notaðir til að dreifa fölskum upplýsingum í kosningabaráttunni.

Þóttust vera vinir vina bandamanna Macron

Rússar hafa neitað að hafa reynt að hafa áhrif á frönsku kosningarnar með því að hakka tölvukerfi og leka tölvupóstum og skjölum. Bandaríska leyniþjónustan telur að Rússar hafi staðið að baki slíkum árásum í aðdraganda forsetakosninganna þar í landi í fyrra.

Heimildir Reuters herma að rússnesku leyniþjónustumennirnir hafi þóst vera vinir vina bandamanna Macron og reynt að nálgast persónulegar upplýsingar um þá. Facebook hafi rakið aðferðir þeirra til tækja sem herleyniþjónusta Rússa hafi áður notað.

Macron hafði auðveldan sigur á öfgaþjóðernissinnanum Marine Le Pen þrátt fyrir að tölvupóstum framboðs hans hafi verið lekið á lokametrum kosningabaráttunnar.Vísir/AFP
Starfsmenn Facebook telja þó að Rússarnir hafi ekki náð svo langt að fá bandamenn Macron til að ná í spilliforrit eða gefa upp aðgangsupplýsingar sínar. Það gæti þó hafa verið markmið þeirra.

Brotist var inn í tölvupósta starfsmanna framboðs Macron og þeim lekið á netið rétt fyrir seinni umferð forsetakosninganna. Enginn hefur enn verið bendlaður við þá árás.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×