Íslenska liðið komst yfir í leiknum með sínu fyrsta marki í síðustu fimm leikjum en fékk svo á sig tvö og tapaði leiknum.
„Þetta var ógeðslega svekkjandi. Eftir að við skorum fyrsta markið var þetta í okkar höndum en svo hleypum við þeim inn í leikinn. Við gerum þetta erfitt fyrir okkur og fáum á okkur tvö mörk,“ sagði Dagný við Vísi eftir leik.
Viðtalið má sjá hér að neðan.
Dagný var tækluð svakalega í byrjun leiks af Lauru Dickermann, fyrirliða Sviss. Sú svissneska stimplaði Dagnýju með sólanum og hefði átt að fá rautt spjald.
„Ég er með takkafar á öllum rifbeinunum. Svona leyfði dómarinn leiknum að ganga. Það er eiginlega ótrúlegt að enginn í þessum leik hafi fengið rautt spjald. Mér fannst dómarinn aðeins vera að missa tökin á honum,“ sagði Dagný sem var ósátt með dómarann.
„Við erum góðar í loftinu en það er dæmt brot á okkur sama hvað við gerum. Vonandi fáum við almennilega dómara í næsta leik.“
Spilamennska íslenska liðsins var upp og ofan í leiknum en Dagný var ekki alveg búin að melta það svona snemma eftir leik.
„Ég er ekkert búin að hugsa út í það. Ég verð bara að horfa á leikinn aftur og sjá hvernig þetta er. Ég hefði viljað sjá okkur halda boltanum betur eins og við gerðum í byrjun. Við þurfum bara að horfa á leikinn og sjá hvað við getum gert betur,“ sagði hún en hvernig var að spila á móti liði sem fór svona mikið í grasið og komst upp með það?
„Auðvitað er það erfitt. Maður áttar sig ekki á því hvernig maður á að vinna boltann þegar þær eru bara komnar í grasið um leið og einhver snertir þær. Vonandi verða dómarar í næsta leik sem að sjá þetta. Ég hefði viljað sjá spjald fyrir leikaraskap fljótlega,“ sagði Dagný Brynjarsdóttir.