Erlent

Pence ítrekar stuðning Bandaríkjanna við Eystrasaltslöndin

Kjartan Kjartansson skrifar
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, tekur í hönd Kersti Kaljulaid, forseta Eistlands í dag.
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, tekur í hönd Kersti Kaljulaid, forseta Eistlands í dag. Vísir/AFP
Varaforseti Bandaríkjanna, Mike Pence, hét Eystrasaltslöndunum að koma þeim til varnar gegn yfirgangssemi Rússa í dag. Kallaði Pence Rússland stærstu öryggisógn landanna í opinberri heimsókn í Eistlandi.

„Árás á eitt okkar er árás á okkur öll,“ sagði Pence í ræðu sinni, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Stjórnvöld í Eystrasaltslöndunum, Eistlandi, Lettlandi og Litháen, hafa verið uggandi eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga í Úkraínu árið 2014. Reiða þau sig á NATO til að verja sig fyrir hugsanlegum ágangi Rússa.

Trump hét stuðningi seint

Framferði Donalds Trump Bandaríkjaforseta olli því leiðtogum ríkjanna hugarangri framan af forsetatíð hans. Í kosningabaráttunni hafði hann lýst NATO sem „úreltu.“

Þá vakti athygli að hann ítrekaði ekki samstöðu Bandaríkjanna með bandamönnum sínum á leiðtogafundi NATO í Brussel í maí. Réðst hann hins vegar að öðrum leiðtogum fyrir greiða ekki meira til eigin varna. 

Skapaði þetta vafa um hvort að Bandaríkin myndu koma fyrrverandi austantjaldslöndunum til varnar. Trump tók þó af tvímæli um það í júní og aftur í opinberri heimsókn í Póllandi fyrr í þessum mánuði.

Pence bar leiðtogum Eystrasaltsríkjanna þau skilaboð frá Trump nú að Bandaríkjamenn stæðu með þeim. Sagði hann enga hættu eins aðsteðjandi fyrir ríkin þrjú og „óútreiknanlegur“ nágranni þeirra í austri.

„Sterkt og sameinað NATO er nauðsynlegra í dag en á nokkrum tímapunkti frá því að kommúnisminn leið undir lok fyrir aldarfjórðungi,“ sagði varaforsetinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×