Erlent

Flugvallarstarfsmaður kýldi farþega sem hélt á barni

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Starfsmaðurinn var ekki á vegum Easy Jet.
Starfsmaðurinn var ekki á vegum Easy Jet. Vísir/getty
Flugvallarstarfsmaður á flugvellinum í Nice kýldi farþega í andlitið þegar hann leitaði svara vegna tafa sem urðu á flugi hans með Easy Jet flugfélaginu. Farþeginn var með litla barnið sitt í fanginu þegar flugvallarstarfsmaðurinn veitti honum höggið. The Guardian greinir frá þessu.

Einn farþeganna, Arabella Arkwright, náði mynd af atvikinu og hefur myndin farið í mikla dreifingu á vefnum. Starfsmenn Easy Jet eru forviða yfir málinu og reyna nú að komast til botns í því.

Þrettán klukkustunda töf varð á flugi frá Nice til Luton og var komin þreyta í mannskapinn þegar atvikið átti sér stað. Kona mannsins sem var kýldur hafði kvartað yfir því að enginn barnamatur væri á svæðinu.

Arabella Arkwright, sem tók myndina, lýsti atvikinu í úvarpsviðtali hjá breska ríkisútvarpinu BBC. Hún sagði að farþeginn hafi, með barnið sitt í fanginu, gengið upp að flugvallarstarfsmanninum og spurt hann spurninga. Í stað þess að svara manninum hafi flugvallarstarfsmaðurinn franski sett upp háðsglott og kýlt manninn í andlitið. 

Eiginmaður Arabellu Arkwright skarst í leikinn og dró flugvallarstarfsmanninn í burtu frá farþeganum og hélt honum þar til lögreglan mætti á svæðið.

Lögreglan fjarlægði bæði farþegann og flugvallarstarfsmanninn en þá mótmæltu farþegarnir hástöfum og kröfðust þess að farþeganum, sem varð fyrir ofbeldinu, yrði hleypt um borð í vélina. Mikil fagnaðarlæti brutust út í vélinni þegar maðurinn komst loksins um borð. 

Starfsmaðurinn var ekki á vegum Easy Jet.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×