Erlent

Tveggja háskólamanna leitað vegna morðs

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Wyndham Lathem og Andrew Warren eru grunaðir um að hafa orðið hinum 25 ára gamla Trenton Cornell-Duranleau að bana.
Wyndham Lathem og Andrew Warren eru grunaðir um að hafa orðið hinum 25 ára gamla Trenton Cornell-Duranleau að bana. Lögreglan í Chicago
Lögregla leitar nú tveggja manna um gjörvöll Bandaríkin vegna morðs sem framið var í borginni Chicago. Handtökuheimildir hafa verið gefnar út á hendur háskólaprófessornum Wyndham Lathem og starfsmanni Oxford-háskóla, Andrew Warren.

Lathem og Warren er leitað vegna gruns um aðild að dauða hins 25 ára gamla Trenton Cornell-Duranleau. Ungi maðurinn, sem starfað hafði sem förðunarfræðingur í Chicago, fannst látinn í íbúð Lathem þann 27. júlí síðastliðinn. Hann hafði verið stunginn fjölmörgum sinnum og látist af sárum sínum, að því er kemur fram í frétt Guardian um málið.

Lögregla í Chicago biðlar nú til mannanna að „gera hið rétta í stöðunni og gefa sig fram við lögreglu.“.

Wyndham Lathem er prófessor í örverufræði við Northwestern-háskólann í Illinois en Andrew Warren starfar við fjármáladeild Oxford-háskóla í Englandi.

Lögregla varar almenning við því að hinir grunuðu séu taldir  „vopnaðir og hættulegir“ og hafi mögulega hvítan fólksbíl af tegundinni Hyundai Sedan til umráða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×