Erlent

Forseti Brasilíu verður ekki dreginn fyrir rétt vegna spillingar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Michel Temer, forseti Brasilíu, hefur ætíð hafnað ásökunum um spillingu.
Michel Temer, forseti Brasilíu, hefur ætíð hafnað ásökunum um spillingu. Vísir/AFP
Brasilíska þingið hefur greitt atkvæði gegn því að réttað verði yfir forseta Brasilíu, Michel Temer, vegna gruns um spillingu. Hann mun því ekki þurfa að svara fyrir ásakanirnar frammi fyrir dómstólum.

Stjórnarandstaðan náði ekki þeim meirihluta í þinginu sem þurfti til að beina málinu til Hæstaréttar í Brasilíu. Temer sagði niðurstöðurnar „skýrar og óvéfengjanlegar.“

Forsetinn hefur verið sakaður um að hafa þegið tólf milljónir Bandaríkjadala, rúman einn milljarð íslenskra króna, í mútugreiðslur frá forstjóra kjötframleiðandans JBS. Termer hefur ætíð hafnað þessum ásökunum.

263 þingmenn af 513 greiddu atkvæði gegn því að réttað yrði yfir forsetanum og 227 með því. Í kjölfar atkvæðagreiðslunnar hét Temer því að gegna embætti út kjörtímabil sitt en því lýkur í desember árið 2018. Samkvæmt frétt BBC brutust út óeirðir meðal þingmanna við atkvæðagreiðsluna.

Frá fjölmennum mótmælum vegna spillingarmáls Michel Temer í gær.Vísir/AFP
Niðurstöður nýlegrar skoðanakönnunar, sem gerð var meðal almennings í Brasilíu, sýndu fram á að yfir 80 prósent landsmanna vildu að rannsókninni á spillingarmáli forsetans yrði haldið áfram. Þá lýsti þingmaður stjórnarandstöðunnar því yfir að hann krefðist þess að Temer yrði komið frá völdum og að blásið yrði til nýrra kosninga.

Fyrirrennara Temer í embætti, Dilma Youssef, var vikið úr embætti árið 2015. Öldungadeild brasilíska þingsins sakfelldi hana um embættisglöp en hún var sökuð um að hafa hagrætt fjárlögum landsins til að hylma yfir vaxandi tekjuhalla ríkisins


Tengdar fréttir

Temer ákærður fyrir mútuþægni

Brasilíuforseti er sakaður um að hafa tekið við háum fjárhæðum frá eiganda kjötvinnslufyrirtækis í landinu.

Réttað yfir Rousseff

Réttað verður yfir Dilmu Rousseff, fyrrverandi forseta Braslíu, í æðsta kosningadómstóli landsins í dag vegna ásakana á hendur henni um embættisglöp.

Örlög forseta Brasilíu ráðast í dag

Brasilíska þingið mun í dag greiða atkvæði um hvort að draga eigi Michel Temer, forseta landsins, fyrir dómstóla vegna ásakana um mútuþægni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×