Erlent

Örlög forseta Brasilíu ráðast í dag

Atli Ísleifsson skrifar
Forsetinn Michel Temer var einn þeirra sem sá til þess að Dilma Rousseff hrökklaðist úr embætti forseta á síðasta ári.
Forsetinn Michel Temer var einn þeirra sem sá til þess að Dilma Rousseff hrökklaðist úr embætti forseta á síðasta ári. Vísir/AFP
Brasilíska þingið mun í dag greiða atkvæði um hvort að draga eigi Michel Temer, forseta landsins, fyrir dómstóla vegna ásakana um mútuþægni. Munu þingmenn fulltrúadeildarinnar ákveða í dag hvort að Temer verði ákærður eður ei.

Íhaldsmaðurinn og þáverandi varaforseti, Temer, var einn þeirra sem sá til þess að Dilma Rousseff hrökklaðist úr embætti forseta vagna ásakana um að hafa fegrað stöðu ríkisreikninga og stýrt spilltri ríkisstjórn.

Temer er sakaður um að hafa þegið nærri fimm milljónir Bandaríkjadala, um 520 milljónir króna á núvirði, í mútur frá fyrirtæki. Hann neitar sök í málinu.

Rannsókn yfirvalda á meintri spillingu stjórnmálamanna síðustu mánuði er sú umfangsmesta í sögu landsins. Hafa mörg hundruð stjórnmálamenn verið í hópi þeirra sem hafa verið til rannsóknar og hafa nokkrir ráðherrar í stjórn Temer neyðst til að segja af sér.

Fari svo að Temer verði dreginn fyrir rétt mun forseti fulltrúadeildar þingsins, Rodrigo Maia, taka við embætti forseta. Annars mun Temer sitja áfram í embætti þar til kjörtímabili hans lýkur í lok næsta árs.

Næstu forsetakosningar í Brasilíu eru fyrirhugaðar í október 2018.


Tengdar fréttir

Temer ákærður fyrir mútuþægni

Brasilíuforseti er sakaður um að hafa tekið við háum fjárhæðum frá eiganda kjötvinnslufyrirtækis í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×