Erlent

Léku á fangavörð með hnetusmjöri og sluppu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Brady Andrew Kilpatrik, einn fanganna sem sluppu, var handtekinn í gærkvöldi í Tequesta í Flórída
Brady Andrew Kilpatrik, einn fanganna sem sluppu, var handtekinn í gærkvöldi í Tequesta í Flórída Vísir/epa
Tólf fangar sluppu úr fangelsi í Alabama-ríki í Bandaríkjunum á sunnudag. Þeir fengu fangavörð til að opna dyr, sem lágu út úr fangelsinu, með því að smyrja hnetusmjöri á hurðina.

Fangarnir flúðu í gegnum opnar dyrnar, að því er segir í frétt BBC. Fangavörðurinn, sem var nýr í starfi, hafði opnað þær vegna hnetjusmjörsins sem smurt hafði verið yfir merki sem gaf til kynna að hurðin væri til útgöngu úr fangelsinu.

Lögregla hefur náð öllum föngunum aftur en sá síðasti, hinn 24 ára Brady Andrew Kilpatrik, var handtekinn í gærkvöldi í Tequesta í Flórída. Lögregla á svæðinu tísti um handtöku hans í gær.

Fangavörðurinn, sem leikið var á, sagðist hafa haldið að hann væri að opna klefadyr fyrir einn af föngunum.

Ekki hafa fengist upplýsingar um það hverrar tegundar hnetusmjörið var. Fangarnir sem sluppu á sunnudag höfðu meðal annars verið dæmdir fyrir fíkniefnabrot, rán og tilraun til manndráps.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×