Erlent

Afnema lög sem hlífa nauðgurum ef þeir giftast fórnarlömbum sínum

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá jórdanska þinginu sem samþykkti í dag að afnema umdeild lög um nauðganir. Myndin er úr safni.
Frá jórdanska þinginu sem samþykkti í dag að afnema umdeild lög um nauðganir. Myndin er úr safni. Vísir/Getty
Þing Jórdaníu samþykkti að fella úr gildi umdeilt lagaákvæði sem hefur gert nauðgurum kleift að sleppa við refsingu giftist þeir fórnarlömbum sínum í dag.

CNN-fréttastöðin hefur eftir jórdönskum þingmanni að tillagan hafi ekki verið rædd í þinginu. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar hefur ekki verið gerð opinber.

„Afnámið er jórdönsku þjóðinni í hag og er í samræmi við íslömsk sjaríalög,“ segir Dima Tahboub úr Islah-flokki íslamista á jórdanska þinginu. Þingmenn hans studdu afnámið allir sem einn.

Ríkisstjórn Jórdaníu lagði tillöguna að afnámi ákvæðisins fram í apríl með blessun Abdullah konungs.

Átta önnur arabaríki eru með sambærileg lög, að sögn mannréttindasamtakanna Human Rights Watch. Þau hafa verið undir vaxandi þrýstingi um að afnema ákvæðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×